Viðskipti erlent

Airbus fagnar samningi við Bandaríkin

Eldsneytisflugvél KC-135 býr sig undir að gefa eldsneyti á flugi.
Eldsneytisflugvél KC-135 býr sig undir að gefa eldsneyti á flugi. MYND/AFP

EADS sem framleiðir Airbus farþegaþoturnar í Evrópu fagnar því að hafa gert samning við Bandaríkjastjórn um smíði eldsneytisflugvéla fyrir bandaríska herinn. Samningurinn er áfall fyrir Boeing verksmiðjurnar í Bandaríkjunum.

Samningurinn kemur Airbus ákaflega vel eftir afturkipp sem varð til endurskipulagningar reksturs fyrirtækisins.

EADS og samstarfsfyrirtæki þess í Bandaríkjunum, Northrop Grumman, sömdu við yfirvöld um einn stærsta samning sem bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur gert í áratugi. Hann hljóðar upp á framleiðslu 179 eldsneytisflugvéla sem geta gefið flugvélum eldsneyti á flugi. Samningurinn hljóðar upp á 2.600 milljarða króna.

„Þetta er gífurlegur sigur á bandarískum markaði," sagði Louis Gallois framkvæmdastjóri EADS í gær á frönsku útvarpsstöðinni France-Info; „Að sigra Boeing á ameríska markaðnum, - við vorum mjög stoltir."

Samningurinn eykur einnig möguleika á því að fleiri samningar verði gerðir við fyrirtækið.

EADS-Northrop Grumman varð fyrir vali bandarískra stjórnvalda að hluta til vegna þess að eldsneytisflugvélin sem þeir lögðu til KC-30 tekur meira eldsneyti, meiri fragt og fleiri farþega samvkæmt heimildum Duncan McNabb herforingja í flughernum.

Búkur vélarinnar er byggður á Airbus A330 farþegavélinni. Endanleg samsetning hennar fer fram í Mobile í Alabama samkvæmt EADS. Þar verða einnig settar saman venjulegar A330 farþegaflugvélar.

„Við sköpum fjölda starfa í Bandaríkjunum, en við sköpum líka störf í Evrópu," sagði Gallois en gaf ekki upp fjölda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×