Innlent

Vinna hefst við enduruppbyggingu á Laugavegi í lok ársins

Vinna við enduruppbyggingu húsanna við Laugaveg 4 og 6 hefst að öllum líkindum fyrir lok þessa árs að sögn borgarstjóra. Kostnaður liggur þó enn ekki fyrir né hvernig framkvæmdum verður háttað.

Eitt af fyrstu verkum hins nýja meirihluta í borgarstjórn var að kaupa húsin við Laugaveg 4 og 6 fyrir 580 milljónir króna. Áður stóð til að rífa húsin og byggja þar hótel en nú á að endurbyggja þau í upprunalegri mynd. Síðan kaupin fóru fram í janúar hefur lítið þokast í málinu og hafa húsin staðið auð.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segir að reynt verði að hraða vinnslu málsins. Aðspurður hvenær hann eigi von á því að framkvæmdir geti hafist segir Ólafur að hann geri sér góðar vonir um að þær geti hafist á þessu ári. Það verði reynt að vinna hratt í þessu máli.

„Að sjálfsögðu erum við ekki tilbúin með teikningar eða framkvæmdir á þessu stigi. Það er verið að reyna vinna hratt og markvisst í þessu máli. Það er líka verið að vinna að endurskoðun deiliskipulags Laugavegarins út frá því skipulagi sem þegar liggur fyrir. Það er ekki verið að kasta neinu á glæ," segir Ólafur.

Samkvæmt áætlun sem fyrri meirihluti lét gera kostar um 390 milljónir að endurbyggja húsin. Ólafur segir alls ekki liggja fyrir hver endanlegur kostnaður kann að verða. Það sé ljóst að borgin fái verulega fjármuni til baka af því sem verið hefur lagt út í þessu sambandi. Þarna hafi verið að bjarga menningarverðmætum og skipulagsmálum á síðustu stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×