Innlent

Borgin á verk Kjarvals

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli erfingja Jóhannesar Kjarvals á hendur Reykjavíkurborg vegna verka listmálarans.

Afkomendur Kjarvals kröfðust þess að dómstólar viðurkenndu eignarrétt þeirra á yfir fimm þúsund listaverkum og fleiri verðmætum sem flutt voru úr vinnustofu vinnustofu Jóhannesar Kjarval síðla árs 1968. Byggðu þeir á því að ekki væri sannað að listamaðurinn hefði með munnlegri yfirlýsingu 7. nóvember 1968 gefið Reykjavíkurborg hina tilgreindu muni heldur hafi hann einungis afhent borginni þá til geymslu.

Maður að nafni Guðmundur Alfreðsson bar fyrir dómi að hann hefði verið viðstaddur þegar Jóhannes Kjarval gaf Reykjavíkurborg munina með munnlegri yfirlýsingu til Geirs Hallgrímssonar borgarstjóra. Í málinu voru lagðar fram dagbókarfærslur Guðmundar frá þessum tíma sem staðfestu frásögn hans.

Í minnisblaði Baldurs Guðlaugssonar, sem starfaði þá sem héraðsdómslögmaður, frá 21. september 1982 var haft eftir Geir Hallgrímssyni að hann hefði verið sannfærður um að um gjöf hefði verið að ræða. Eftir uppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur gaf Jón Halldór Gunnarsson sendibifreiðastjóri skýrslu fyrir dómi en hann aðstoðaði við flutning gagnanna 1968. Renndi framburður hans enn frekari stoðum undir að um gjöf hefði verið að ræða.

Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að gögn málsins bentu eindregið til þess að ákvörðun Jóhannesar Kjarval um að afhenda Reykjavíkurborg þá muni sem um ræðir, hefði átt aðdraganda og mótast á nokkrum tíma, einkum eftir að borgin ákvað að reisa listasafn og sýningahús sem skyldi bera nafn listamannsins. Taldist því sannað að listamaðurinn hefði gefið borginni þá muni sem málið snerist um með munnlegri yfirlýsingu 7. nóvember 1968. Var kröfum erfingjanna því hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×