Viðskipti erlent

Fjárfestar óttast samdráttarskeið

Miðlarar fylgjast með tölunum á bandarískum hlutabréfamarkaði.
Miðlarar fylgjast með tölunum á bandarískum hlutabréfamarkaði. Mynd/AP

Gengi hlutabréfa lækkaði almennt í Bandaríkjunum í dag en fjárfestar þar  telja nú meiri líkur en minni á því að samdráttarskeið sé yfirvofandi vestanhafs.

Fréttirnar hafa svosem ekki verið góðar í vikunni en fjárfestar hafa fram til þessa talið líkur á að verri fréttir geti leitt til þess að seðlabankinn grípi inn í og lækki stýrivexti frekar til að létta á ástandinu. Í minnispunktum frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankastjórnar bandaríska seðlabankans, sem birtar voru í vikunni, kemur hins vegar fram að aukist verðbólga meira á milli mánaða verði dregið úr frekari lækkunum vaxta.

Stýrivextir hafa lækkað í Bandaríkjunum um 1,25 prósent frá áramótum vegna ástandsins á lánsfjármörkuðum, sem rót á að rekja til mikilla vanskila á bandarískum fasteignalánamarkaði, svo fátt eitt sé nefnt.

Nýjustu hagvísar, sem birtir voru í dag, voru ekki til þess að létta brúnina á bandarískum fjárfestum. Tölurnar sýna að framleiðni hefur dregist meira saman á milli mánaða en reiknað hefur með auk þess útlit er fyrir að hagvöxtur verði minni á þessu ári en því síðasta. Þetta er í samræmi við efnahagsspá bandaríska seðlabankans, sem sömuleiðis var birt í gær. Um hálfu prósentustigi munar á fyrri spá bankans og þeirri sem gefin var út í gær en reiknað er með að hagvöxtur verði í kringum tvö prósent hið mesta.

Næsti vaxtaákvörðunardagur bandaríska seðlabankans er 18. mars næstkomandi. Associated Press-fréttastofan hefur eftir fjárfestum að þeir séu þegar farnir að reikna með allt að 50 punkta lækkun. Reikna má með miklum vonbrigðum í þeirra röðum ákveði seðlabankinn að láta af frekari lækkun í bili og horfa fremur til þess að draga úr verðbólgu, sem hefur aukist umfram væntingar samhliða vaxtalækkun frá á haustdögum.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,15 prósent við enda viðskiptadagsins á bandarískum hlutabréfamörkuðum í dag en Nasdaq-vísitalan um 1,17 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×