Viðskipti erlent

Mikil söluaukning en vonbrigði með hagnað Betsson

Mikil söluaukning hefur verið hjá veðmálafyrirtækinu Betsson og mælist hún 121% á milli ára. Aukningin frá þriðja til fjórða fjórðungs er 15%. Hagnaður ársins var um 180 milljónum skr. eða um 1,8 milljarði kr. sem er næstum sex sinnum meiri hagnaður en árið áður.

Fjallað er um uppgjörið í Vegvísi greiningar Landsbankans. Þar segir að hagnaður fjórða ársfjórðungs var 43 milljónir skr. en markaðsaðilar höfðu spáð fyrir um 55 milljónum skr. í hagnað og veldur því uppgjörið talsverðum vonbrigðum.

Spáð er um 20-30% veltuaukningu á leikjum og veðmálum á netinu á árinu 2008 og hefur Betsson sett sér það markmið að vaxa hraðar en aðrir aðilar á markaðnum í þessum geira.

Í dag var einnig tilkynnt að janúar 2008 hefði verið söluhæsti mánuður þeirra frá upphafi og það sem af er febrúar lítur enn betur út. Betsson hóf nýlega starfssemi í Perú og hefur áhuga á fleiri löndum í S-Ameríku.

Verð á bréfum Betsson hafa lækkað um 6,08% það sem af er dags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×