Innlent

Félag gegn Pólverjum

Hátt í sjöhundruð manns, mikið til ungt fólk, hafa skráð sig í hóp á netinu sem kallar sig Félag gegn Pólverjum á Íslandi. Þar er farið niðrandi orðum um Pólverja sem búsettir eru hérlendis.

Hópurinn er með síðu á tenglavefnum Myspace. Fjölmargir Íslendingar nota vefinn en hann hefur notið mikilla vinsælda víða um heim. Hópurinn var stofnaður á föstudaginn en síðan þá hafa hátt í sjöhundruð manns skráð sig þar inn, mikið til ungt fólk. Skráðir félagar eru meðal annars unglingar allt niður í þrettán ára.

Sá sem stofnaði hópinn segist vera fjórtán ára strákur búsettur í höfuðborginni. Pilturinn segir á síðunni að best sé að losa sig við Pólverja áður en það verði of seint en þeir skemmi hluti og þykist eiga landið.

Á spjallaþráðum á síðunni má lesa færslur sem félagar hafa skrifað sín á milli. Þar er farið niðrandi orðum um Pólverja hér á landi, sagt að þeir kunni íslensku og ensku illa og að vera þeirra hér skapi vandamál. Einhverjir sem skrifað hafa á síðuna velta því fyrir sér hvort ekki sé saknæmt að halda úti svona síðu.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafði ekki séð síðuna þegar fréttastofa hafði samband við hann í dag. Hann sagði að hún yrði skoðuð. Refsivert geti verið að halda úti síðum þar sem níðst sé á ákveðnum þjóðfélagshópum svo og að skrifa slíkar færslur á netinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×