Innlent

Frumvarp um orkumál á leið úr þingflokki á næstu dögum

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. MYND/GVA

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess í dag að frumvarp Össurar Skarphéðinssonar um orkumál yrði lagt fram á þingi hið fyrsta. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir von á frumvarpinu á næstu dögum.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, kvaddi sér hljóðs um störf þingsins og vísaði til starfa stjórnarskrárnefndar og umræðna um sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins. Innti hann Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, eftir því hvað liði skoðun á álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um kvótakerfið og sömuleiðis frumvarpi um orkumál sem sæti fast inni í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Arnbjörg svaraði því til að álit mannréttindanefndar SÞ væri til skoðunar í sjávarútvegsráðuneytinu. Fram hefði komið að það væri mikilvægt að skoða málið frá öllum hliðum en litlar vísbendingar kæmu fram í álitinu um það hvað mannréttindanefndin ætlaðist til þess að Alþingi gerði. Málið væri mjög flókið.

Um frumvarp iðnaðarráðherra sagði Arnbjörg að verið væri að skoðað það mjög vandlega í þingflokki sjálfstæðismanna og menn hefðu eðlilega mikinn áhuga á að kynna sér málið. Menn væru langt komnir og von væri á því úr þingflokknum í þessari eða næstu viku.

Sérkennilegt að frumvarp virðist komið út í bæ en ekki á þing

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, spurði hvor til stæði að hafa þverpólitíkst samráð um kvótamálið. Sagði hann enn fremur sérkennilegt að frumvarp um orkumál væri ekki komið fram á Alþingi en það virtist engu að síður komið út í bæ.

Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, sagði eðlilegt að spyrja um úrvinnslu mála á stjórnarheimilinu. Ágreiningur í þessu máli bættist ofan á fleiri ágreiningsefni stjórnarflokkanna, þar á meðal ráðningu héraðsdómara og stefnu í Evrópumálum. Spurði Kristinn hvort ríkisstjórninn myndi ráða við öll þess ágreiningsefni.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði orkumálafrumvarpið sitja fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, en samt væri það komið út um allan bæ. Stjórnarandstöðuþingmenn fengju ekki aðgang að því en svo virtist sem Morgunblaðið ætti sér fulltrúa á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins. Skoraði hann á sjálfstæðismenn að aflétta leyndinni af frumvarpinu.

Ekkert óeðlilegt að frumvarp sé lengi til umfjöllunar

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, bað framsóknarmenn um að skýra sjónarmið sín í orkumálum og sömuleiðis sjávarútvegsmálum. Spurði hann hvort Framsóknarflokkurinn væri fallinn frá fyrri hugmyndum kvótakerfið og kallaði eftir hugmyndum frá Framsókn um það hvernig taka ætti á áliti mannréttindanefndar SÞ.

Lúðvík sagði ekkert óeðlilegt að frumvarp um orkumál væri lengi til umfjöllunar hjá Sjálfstæðisflokknum. Hér væri um stórmál að ræða, eignarhald á auðlindum, og verið væri að taka á málum sem hefðu legið í láginni lengi. Þá benti hann stjórnarandstöðuþingmönnum á að mál væri ekki orðið að þingmáli fyrr en það hefði verið lagt fram á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×