Viðskipti erlent

Þjóðverjar reiðir út í Nokia -ráðherrar henda símum sínum

Óli Tynes skrifar
Horst Seehofer, landbúnaðarráðherra Þýskalands.
Horst Seehofer, landbúnaðarráðherra Þýskalands.

Landbúnaðarráðherra Þýskalands er svo súr yfir því að Nokia skuli vera að loka verksmiðju sinni í Þýskalandi að hann hefur lýst því yfir að hann ætli að skipta um síma.

Og Horst Seehofer er ekki einn um það. Margir þýskir stjórnmálamenn hafa sagst ætla að henda Nokia símum sínum og fá sér aðra tegund.

Hagfræðingar hrista hinsvegar höfuðið yfir þessumviðbrögðum. Jafnvel þeir þýsku. Þeir segja að þessi ákvörðun komi ekki á óvart. Það hafi aðeins verið spursmál um hvenær, ekki hvort.

Þeir benda á að flestir textíl- og raftækjaframleiðendur hafi flutt framleiðslu sína frá Þýskalandi til Austur-Evrópu í kringum 1990. Ákvörðun Nokia sé því fullkomlega eðlileg.

Nokia hefur synjað beiðni þýskra stjórnmálamanna um að halda verksmiðjunni gangandi. Hinsvegar lofa Finnarnir að gera vel við starfsfólkið sem missir vinnu af þessum sökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×