Viðskipti erlent

Mikill áhugi fjárfesta á kaupum í Nyhedsavisen

Lars Lindström starfandi forstjóri útgáfu Nyhedsavisen segir að mikill áhugi sé meðal fjárfesta á kaupum í Nyhedsavisen. Danskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað mikið um málið í viðskiptafréttum sínum.

Samkvæmt dönskum fjölmiðlum er talið mjög erfitt fyrir Nyhedsavisen að sækja sér nýtt fjármagn eins og staðan er í efnahagslífinu í dag og kom sú skoðun fram í umfjöllun Berlingske í morgunn.

Lars Lindström blæs á þessi sjónarmið og segir í samtali við Vísi að bæði danskir og erlendir fjárfestar hafi sýnt málinu áhuga. "Á síðustu þremur mánuðum hefur bæði lestur og dreifing Nyhedsavisn aukist mikið," segir Lars. "Við erum með besta prentmiðil Danmerkur og það geta fjárfestar séð í hendi sér. Og í því sambandi skiptir engu hvort efnahafslífið sé slæmt eða gott."

Lars segir einnig að nýir fjárfestar myndu líklega skoða málið með langtímafjárfestingu í huga. Hann vildi ekki tjá sig um hvaða upphæðir er um að ræða hvað varðar nýtt fjármagn inn í fyrirtækið.

Lars er forstjóri útgáfunnar í fjarveru Gunnars Smára Egilssonar sem nú dvelur í þriggja mánaða fæðingarorlofi hér heima.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×