Viðskipti erlent

Smásalar í Bretlandi verða í vandræðum á árinu

Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs Group.
Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs Group.

Ritstjóri viðskiptahluta breska dagblaðsins the Daily Telegraph sér fram á erfiða tíma fyrir fyrirtæki á smásölumarkaði á Bretlandseyjum, en þar er Baugur Group á meðal þeirra fyrirferðamestu. Í blaðinu í gær fer Damian Reece yfir það sem hann telur að muni valda mestum titringi í viðskiptaheiminum á komandi ári. Efst á blaði eru vandræði húsnæðislánabankans Northern Rock sem hann segir að muni halda áfram langt fram á nýja árið. En næst nefnir hann smásöluna á Bretlandseyjum og að í þeim geira verði fyrstu þrír mánuðir ársins mönnum afar erfiðir.

Að mati Reece mun árið byrja afar illa fyrir verslunarmenn á Bretlandi. Fólk hafi tekið við sér í eyðslunni í desember vegna þess að útsölurnar hafi byrjað töluvert fyrir jólin. Því sé ekki hægt að vonast eftir því að neytendur skelli sér í búðirnar í bráð eftir hátíðirnar og spáir hann því að verslunargöturnar verði auðar í janúar og febrúar. Hann segist taka undir spádóma þess efnis að neyslan muni dragast saman á árinu. Árið 2007 nam aukning í veltu neytenda 3,1 prósenti en aukningin verður ekki nema 1,9 prósent á þessu ári sem nú gengur í garð.

 

„Búast má við holskeflu afkomuviðvarana á næstunni auk þess sem stjórnendur smásöluverslananna eiga ekki náðuga daga framundan," segir Reece.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×