Viðskipti innlent

Beðið aðgerða Seðlabanka

Björn Ingi Hrafnsson og Óli Kristján Ármannsson skrifar
Seðlabankinn
Seðlabankinn
„Afleiðingin af því að ríkissjóður axli skuldbindingar Glitnis hefur orðið sú að lánshæfismat ríkisins og um leið bankanna hefur lækkað. Þetta gerir fjármögnun bankanna ennþá erfiðari en ella sem getur truflað starfsemi þeirra verulega," segir Ólafur Ísleifsson, kennari við Háskólann í Reykjavík.

Hann telur að ekki hafi verið sýnt fram á að þjóðnýting hafi verið eini kosturinn í stöðunni.

„Hér sýnast því hafa verið gerð alvarleg mistök af hálfu Seðlabankans. Auk þess hefur aðgerðaleysi bankans gagnvart gjaldeyrisskorti og falli krónunnar rýrt traust á bankanum innanlands jafnt sem erlendis. Mjög virðist skorta á að bankastjórn Seðlabankans njóti trausts í stjórnmálalífi þjóðarinnar og í fjármálaheiminum. Slíkt traust er forsenda fyrir því að bankinn geti náð fullnægjandi árangri við þær aðstæður sem nú eru uppi," segir Ólafur og bætir því við að ríkisstjórnin hljóti að bregðast við þessum trúnaðarbresti.

Heimildir innan úr ríkisstjórn herma að unnið verði alla helgina að lausn mála og „allir angar séu úti" í þeim efnum. Markmiðið sé að kynna ýmsar ráðstafanir fyrir opnun markaða á mánudagsmorgun.

Haft er eftir Tryggva Þór Herbertssyni, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, á fréttaveitunni Reuters að ekki sé unnið sérstaklega að björgun bankanna, enda standi þeir vel. Hins vegar þurfi að treysta gjaldeyrismarkaðinn og liðka fyrir viðskiptum.

Í samtali við Bloomberg segir Tryggvi Þór að ekki standi til að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Markaðurinn hefur heimildir fyrir því að unnið sé að mjög stórri lántöku ríkissjóðs erlendis og hafa erindrekar Seðlabanka fundað beggja vegna Atlantshafsins síðustu daga í þeim tilgangi.

„Það bíða allir eftir því að Seðlabankinn geri eitthvað," er haft eftir Beat Siegenthaler, háttsettum sérfræðingi hjá verðbréfafyrirtækinu TD í Lundúnum í frétt Bloomberg.

„Þetta er eini seðlabankinn í veröldinni sem ekki hefur gripið inn í ástandið með einhverjum hætti í því skyni að styrkja fjármálageirann," segir Siegenthaler enn fremur í viðtali við Bloomberg.

Hann segir að fjölmargir erlendir miðlarawr hafi haft á orði að þeir hafi aldrei áður séð gjaldmiðil veikjast svo mikið og á jafn skömmum tíma án þess að seðlabanki viðkomandi ríkis segi eitthvað eða reyni með einhverjum hætti að bregðast við því.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar funduðu í gær með aðilum vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna um efnahagsráðstafanir og mögulegar aðgerðir til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans, til dæmis með sölu erlendra eigna lífeyrissjóða. Sú vinna heldur áfram um helgina. Einn heimildarmaður blaðsins sagði að lítið yrði sofið næstu daga, meðan unnið væri að lausn mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×