Viðskipti innlent

Nauðsynlegt að bjarga Skífunni

Ari Edwald, forstjóri 365, sem rekur Senu.
Ari Edwald, forstjóri 365, sem rekur Senu.

Það yrði gífurlegt áfall fyrir Senu ef að Skífan færi í gjaldþrot og aðgengi Senu að geisladiskamarkaðnum myndi stöðvast. Þetta er ástæða þess að Sena ákvað að kaupa Skífuna af Árdegi. Samningar þess efnis voru undirritaðir í gær.

Ari Edwald, forstjóri 365 sem rekur Senu, segir að í flestum greinum sé Sena birgir fyrir marga smásöluaðila, en í tónlistinni sé því öðruvísi farið. Þar hafi Skífan 70% af allri sölu á tónlistardiskum frá Senu. „Þannig að það er gífurlegt áfall fyrir Senu ef Skífan og Árdegi eru að fara í gjaldþrot og myndi stöðva aðgang Senu að markaðnum. Að maður tali ekki um núna í upphafi jólavertíðar," segir Ari.

Ari segir því að það sé af brýnni nauðsyn sem Sena stígi þarna inn til að taka yfir þennan rekstur. Annars yrði sala á geisladiskum með tónlist í algjöru uppnámi. „Með þessum kaupum þá er því afstýrt og það eru allar líkur á því að verslunarrekstur Skífunnar verði ekki fyrir neinu hnjaski," segir Ari. Hann segist trúa þvi að Sena geti sett meiri kraft í þennan verslunarrekstur en verið hafi að undanförnu.

Í tilkynningu sem Árdegi sendi frá sér í dag kemur fram að stefnt sé að sölu á BT verslununum. Ari segir að ekki standi til að Sena kaupi þann rekstur. BT verslanirnar hafa verið lokaðar um helgina og í kvöldfréttum RÚV kom fram að óvíst væri hvort þær myndu opna eftir helgi. Starfsmenn hafa ekki fengið greidd laun þessi mánaðamót.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×