Innlent

40 tonna grafa valt út í sjó

Betur fór en á horfðist þegar 40 tonna grafa valt út í sjó skammt frá flugvellinum á Akureyri í morgun.

Óhappið varð laust fyrir klukkan ellefu í morgun þegar flytja átti gröfuna burt á vagni. Sennilega hefur hálka orðið til þess að grafan stakkst hægra megin út af veginum og niður í sjó að hluta. Hún er 40 tonn að þyngd og því engin smásmíði.

Gröfumaðurinn slasaðist ekki og komst hann af sjálfsdáðum út úr gröfunni. Að sögn verkstjóra hjá Ístaki, eiganda gröfunnar, standa vonir til að grafan sjálf sé ekki stórskemmd en of snemmt er þó að spá fyrir um það. Hann sagði í samtali við Stöð 2 að menn teldu mildi að ekki hefði farið verr miðað við aðstæður.

Vegurinn sem óhappið varð á var lagður vegna lengingar flugbrautarinnar á Akureyri en þar standa framkvæmdir sem hæst.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×