Viðskipti innlent

Íslenskir bankar nálgast erlenda

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Skuldatryggingarálag á íslenska banka lækkaði í kjölfar gjaldeyrisskiptasamninga Seðlabankans sem kynntir voru á föstudag. Kjör íslensku bankanna á erlendum fjármálamörkuðum hafa batnað mest allra banka.

Skuldatryggingarálag er gjald sem leggst ofan á alþjóðlega millibankavexti og hækkar eftir því sem meiri áhætta er talin tengjast viðkomandi banka.

Álag á skuldabréf Landsbankans hefur lækkað mest síðan á föstudag, um 65 punkta, og nálgast þau kjör sem sumum erlendum stórbönkum standa til boða. Þar á eftir kemur Kaupþing með 28 punkta lækkun og svo Glitnir með 26 punkta lækkun.

Mest álag er eftir sem áður á bréf Kaupþings, 425 punktar. Álag á bréf Glitnis er 380 punktar en 185 punktar á bréf Landsbankans.

Gengi krónunnar heldur áfram að styrkjast og hafði við lok markaða í gær styrkst um 7,8 prósent á fimm viðskiptadögum, að því er greiningar­deild Landsbankans bendir á.

Í gær styrktist hún um 1,1 prósent, en um 4,1 prósent á föstudag, sem er mesta styrking á einum degi síðan í apríl 2002.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×