Viðskipti innlent

Fiskverkun beðin um að opna bankareikning á Bahamaeyjum

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.

Útflytjendur á Íslandi eru nú að reyna að fá greitt fyrir afurðir sínar erlendis eftir óhefðbundnum leiðum. Vísir.is hefur heimildir fyrir því að einn af viðskiptavinum fiskverkunar hérlendis hafi beðið verkunina um að stofna reikning á Bahamaeyjum svo hann gæti komið skuld sinni í hendur verkunarinnar og keypt meir af fiski frá Íslandi.

Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að ástandið sé að verða gersamlega óþolandi. „Þá á ég ekki bara við um þá erfiðleika sem eru á greiðslumiðluninni með gjaldeyrinn heldur þær greiðslur sem frusu inni í bönkum erlendis þegar bankarnir hér féllu. Þar erum við að tala um upphæðir sem skipta milljörðum króna," segir Friðrik.

„Það er ljóst að útgerðir geta ekki beðið mikið lengur eftir að málin komast í lag. Hér heima verða þær að sjálfsögðu að standa skil á launum og öðrum rekstarkostnaði. Það verður erfitt án lánafyrirgreiðslu ef ekki er hægt að fá greiðslur fyrir afurðirnar ytra."

Friðrik segir ennfremur að menn séu að reyna sitt besta með því að beina greiðslum frá t.d. Bretlandi til Noregs og Danmerkur. Það sé ekki langtímalausn enda þurfi að borga álag á slíkar millifærslur.

Indriði Ívarsson, sölustjóri hjá Ögurvík, segir að menn þar séu í biðstöðu. „Við höfum beðið viðskiptavini okkar í Bretlandi að halda að sér höndum með greiðslur til okkar meðan þetta ástand varir," segir Indriði. „En það er ljóst að við getum ekki beðið endalaust."

Indriði segir að um þrjá aðila í Bretlandi sé að ræða og upphæðin sem þeir eigi eftir að fá greidda sé umtalsverð. „Þetta getur ekki gengið lengi án þess að við neyðumst til að stöðva skip okkar og senda mannskapinn heim," segir Indriði. „Við þurfum að geta staðið skil á launagreiðslum og öðrum rekstrarkostnaði eins og olíu. Ef við getum ekki fengið greitt fyrir afurðir okkar blasir við að allt stoppar."

Indriði segir að það létti aðeins undir að birgðastaðan í Bretlandi er góð. Hins vegar megi búast við að markaðir þar tapist ef ekki tekst að koma málum í lag á næstu dögum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×