Fastir pennar

Ekki einkamál Íslendinga

Þorvaldur Gylfason skrifar

Þegar Ísland lendir í stórfelldum kröggum, eru þær ekki einkamál Íslendinga. Til þess liggja tvær höfuðástæður. Í fyrsta lagi þurfa Íslendingar nú á erlendri aðstoð að halda, og okkur er flestum engin mikils háttar minnkun að því. Sælla er að gefa en þiggja, satt er það, en nú þurfum við að þiggja liðsinni annarra.

Það er ekki einkamál hvers og eins, hversu mikla hjálp hann þiggur af öðrum. Við eigum kost á aðstoð, því að við höfum með alþjóðasamningum tryggt okkur aðild að stórri fjölskyldu vinaþjóða og annarra, þar sem menn hjálpast að. Til þess eru fjölskyldur: orðið segir allt, sem segja þarf. Ríkisstjórnin hefur teflt skákina þannig, að hjálpin þarf nú að berast án frekari tafar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF). Það er að minni hyggju góður kostur eins og allt er í pottinn búið.

Margt bendir til, að Seðlabankar Norðurlanda, Evrópu og Bandaríkjanna hafi fyrir alllöngu ráðlagt ríkisstjórninni að leita til sjóðsins, þegar ljóst var, hvert stefndi, en ríkisstjórnin hafi færzt undan. Sé svo, bætist enn við langt syndaregistur ríkisstjórnarinnar. Ekki er heldur óhugsandi, að Rússar reyni einnig að beina Íslendingum til sjóðsins, enda myndu þeir með því móti taka sér stöðu með iðnríkjunum, sem eru hryggjarstykkið í sjóðnum.

Veiti Rússar Íslendingum lán með veikari skilyrðum en sjóðurinn myndi veita, eiga Rússar á hættu að skaða samskipti sín við iðnríkin.

Aðalatriðið er þetta, eins og hagfræðingarnir Jónas Haralz og Ólafur Ísleifsson hafa einnig bent á: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræður aðildarlöndum jafnan ekki að gera annað en það, sem þau þurfa að gera hvort eð er, en hafa ekki afl til að gera á eigin spýtur. Sjóðurinn blandar sér ekki í innlend stjórnmál, það er grundvallarreglan, en honum ber samkvæmt stofnsáttmála að setja skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð. Honum ber einnig að fylgjast með, hvort skilyrðin eru virt. Þetta er gert til að auka líkurnar á, að hjálpin nýtist svo sem að er stefnt og landið geti staðið í skilum.

Alþjóðleg rannsóknarnefnd

Í annan stað á umheimurinn refjalausa heimtingu á að fá að vita, hvað fór úrskeiðis hér heima. Íslendingar geta ekki verið þekktir fyrir að reyna að halda því leyndu, þar eð aðrar þjóðir þurfa að fá að læra af mistökum íslenzkra stjórnvalda auk þess sem þær búast nú til að rétta Íslandi hjálparhönd. Hér færi að minni hyggju bezt á því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitti sér fyrir skipan óháðrar alþjóðlegrar rannsóknarnefndar, sem verði skipuð reyndum erlendum sérfræðingum. Þessi nefnd þyrfti að vinna hratt og birta álit sitt opinberlega sem fyrst. Þjóðin þarfnast slíkrar nefndar til að endurreisa traust milli manna og traust umheimsins.

Reynslan utan úr heimi sýnir, að bankahrun af því tagi, sem hér hefur átt sér stað, getur leitt til óstöðugs stjórnarfars og myndunar öfgahópa, sem bítast um brakið og berja stríðsbumbur. Heilbrigð stjórnmálaþróun útheimtir, að forsagan sé rétt rakin og öllum hliðum málsins til haga haldið. Sjóðurinn hefur ekki áður hvatt til slíks upgjörs eða sett slíkt skilyrði fyrir aðstoð við aðildarland, en hann gæti átt eftir að grípa til þessa ráðs í öðrum löndum síðar, ef vel tækist til á Íslandi.

Þeir, sem óttast, að sjóðurinn leggi harkalegri efnahagsráð að stjórnvöldum en þau myndu reyna sjálf án aðkomu sjóðsins, geta huggað sig við, að án sjóðsins og erlendrar rannsóknar fengju öll kurl trúlega aldrei að koma til grafar í þessu alvarlega máli. Þessu ættu þeir að velta fyrir sér, sem tortryggja sjóðinn vegna þeirrar réttmætu gagnrýni, sem hann sætti fyrir sum ráðin, sem hann veitti Asíulöndum í fjármálakreppunni þar fyrir áratug. Sjóðnum varð þar að sumu leyti á í messunni, og hann hefur beðið forláts á því. Þá vissu hvorki hagfræðingar sjóðsins né aðrir margt af því, sem við þykjumst nú vita í ljósi reynslunnar. Því fór sem fór. Litlar líkur eru því til þess, að sagan frá Asíu myndi endurtaka sig á Íslandi.Hvítþvottarbók? Nei takk

Íslendingar eiga ekki að koma sjálfir að verki rannsóknarnefndarinnar nema sem ráðgjafar og ritarar. Fráleitt væri, að ríkisstjórnin gæfi sjálf út hvítbók um málið líkt og forsætisráðherra hefur nefnt, því að hún yrði sennilega hvítþvottarbók. Líkast til þyrftum við einnig aðstoð útlendinga við að vinna úr áliti nefndarinnar, því að víða er pottur brotinn í réttarkerfinu hér eins og allir vita ekki síður en í efnahagsmálunum. Nefndin myndi væntanlega leggja á ráðin um úrvinnsluna.
×