Innlent

Lögregla neitar sök í 10-11 máli

Myndbandið af árásinni fór sem eldur í sinu um íslenskt samfélag.
Myndbandið af árásinni fór sem eldur í sinu um íslenskt samfélag. MYND/YouTube

Lögreglumaður, sem ákærður hefur verið fyrir að hafa tekið ungan pilt kverkataki í verslun 10-11 í Grímsbæ í lok maí, neitar sök í málinu.

Ákæra ríkissaksóknara á hendur honum var þingfest í dag. Málið vakti mikla athygli enda sáust myndir af atvikinu á myndbandavefnum YouTube. Þar sést lögreglumaðurinn ráðast á piltinn eftir að hafa beðið hann um að tæma vasa sína.

Lögregluyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu ákváðu í kjölfar þess að málið kom upp að lögreglumaðurinn skyldi ekki sinna störfum á meðan Ríkislögreglustjóri tæki ákvörðun um hvort vísa bæri manninum frá störfum á meðan á rannsókn ríkissaksóknara stæði.

Maðurinn kom hins vegar aftur til starfa í sumar og er enn við störf að sögn Guðmundar Guðjónssonar hjá Ríkislögreglustjóra. Honum verður ekki vikið úr starfi að svo stöddu.

Aðalmeðferð í málinu verður 10. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×