Skoðun

Velferðarríkið til varnar

Stefán Ólafsson skrifar

Kreppan verður þjóðinni afar erfið næstu 2 til 3 árin. Mikil skuldabyrði heimila, atvinnuleysi og kjaraskerðing eru fyrirsjáanleg. Hætta er á skaðlegum landflótta. Við þessar aðstæður er mikilvægt að heimilin verði varin eins og kostur er. Stjórnvöld undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur hafa þegar innleitt leiðir til að auka sveigjanleika við afborganir lána og við framkvæmd atvinnuleysisbóta. Það er gott. Eftirfarandi 6 úrræða er einnig þörf:

• Fólk fái fullar heimildir til að losa séreignasparnað sinn nú þegar til að lækka húsnæðisskuldir;

• Vaxtabætur vegna húsnæðisskulda verði hækkaðar mikið;

• Vísitölubinding húsnæðisskulda verði skert tímabundið, að hálfu eða fullu;

• Grunnur atvinnuleysisbóta verði hækkaður;

• Stórefla þarf virkniaukandi aðgerðir vegna atvinnulausra (þ.e. styrkja stoðkerfi atvinnuþátttöku, endurmenntunar og endurhæfingar);

• Almannatryggingar og lágmarksframfærslutrygging þurfa að hækka til fulls vegna verðlagsbreytinga 1. janúar 2009, eins og lög kveða á um.

Nýting séreignasparnaðar nú getur lækkað húsnæðisskuldir og greiðslubyrði margra heimila og það léttir einnig þrýstingi af ríkisvaldinu og gerir því betur kleift að styðja þá sem minnst hafa. Vörslumenn séreignasjóða munu leggjast gegn þessu en fólkið á að ráða þessu sjálft, enda verður ávöxtun sjóða áfram áhættusöm. Ef ekki tekst að fá fram tímabundið afnám vísitölubindingar húsnæðisskulda verður að hækka vaxtabætur verulega. Þær rýrnuðu mjög frá 1995 til 2005. Hækkun þeirra nýtist best þeim heimilum sem lægstar tekjur og mestar skuldir hafa.

Atvinnuleysisbætur hér á landi eru mjög lágar m.v. meðallaun. Tekjufall meðaltekjufólks sem lendir í atvinnuleysi verður því að óbreyttu of hátt. Hærra atvinnuleysisstig en áður hefur þekkst mun skapa ný og erfið vandamál. Stóraukinna virkniaukandi aðgerða er þörf. Slíkar aðgerðir voru t.d. afar þýðingarmiklar í kreppunni í Svíþjóð 1990-1994.

Almannatryggingar þurfa loks að verja lífeyrisþega sem margir hafa lágar tekjur.

Til að velferðarríkið geti varið heimilin þarf að auka útgjöldin á mikilvægustu sviðum þess. Því verður að mæta með skattahækkunum á þá sem breiðari bökin hafa. Það er einmitt fólkið sem hlaut aukin skattfríðindi á síðustu tólf árum.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×