Viðskipti erlent

Dow Jones hrundi á afmælisdeginum

Bandarískir fjárfestar orðlausir á Wall Street.
Bandarískir fjárfestar orðlausir á Wall Street. Mynd/AP
Gengi hlutabréfa í bandaríska bílaframleiðandanum General Motors hrundi um 31 prósent á fjármálamörkuðum vestanhafs í dag eftir að matsfyrirtækið Standard & Poor´s setti félagið á athugunarlista með mögulega lækkun í huga. Ástæðan fyrir þessu er minnkandi sala á nýjum bílum fyrirtækisins í Bandaríkjunum samfara hrakspám um yfirvofandi efnahagssamdrátt. Gengi bréfa í félaginu endaði í 4,76 dölum á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan á sjötta áratug síðustu aldar. Gengi annarra bílaframleiðenda féll á sama tíma en þó hvergi nærri jafn mikið og í General Motors. Fallið dró bandarískan hlutabréfamarkað með sér með miklum skelli. Dow Jones-hlutabréfavísitalan hrapaði um 7,33 prósent og endaði í rúmum 8.579 stigum. Vísitalan hefur ekki verið lægri í fimm og hálft ár. Í dag er ár síðan hlutabréfavísitalan náði hæstu hæðum þegar hún endaði í 14.198 stigum. Þá féll Nasdaq-vísitalan um 5,47 prósent og endaði hún í 1.645 stigum.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×