Viðskipti erlent

Þjóðnýting Glitnis þýddi skell fyrir Carnegie í Svíþjóð

Sænski fjárfestingarbankinn Carnegie, sem er að stærstum hluta í eigu Moderna Finance, dótturfélags Milestone, féll um 17% í gær.

Greining Kaupþings fjallar um málið í Hálf fimm fréttum sínum. Þar segir að gengislækkunin verði varla skýrð á annan hátt en með þeim atburðum sem áttu sér stað með þjóðnýtingu Glitnis þegar íslenska ríkið keypti um 75% hlut í bankanum og svo virðist að tengsl Milestone og Glitnis ráði þar um.

Milestone er nefnilega annar stærsti hluthafinn í Glitni í gegnum Þátt eignarhaldsfélag sem heldur utan um 5,6% í íslenska bankanum.

Moderna, sem áður hét Invik, á um 17,6% í Carnegie. Frá áramótum hafa hlutabréf Carnegie fallið um 59% og stóð markaðsverðmæti hans í um 60 milljörðum króna í lok dags.

Carnegie tilkynnti í dag um aðgerðir sem eiga að auka skilvirkni í starfseminni og koma rekstarkostnaði á sama ról og hann var í árslok 2006. Það myndi þýða um 10% lækkun rekstrarkostnaðar. Ætlunin er að draga úr viðskiptum með gjaldeyri og erlend hlutabréf og fækka störfum. Þetta mun hafa áhrif á 40 störf og fellur einskiptiskostnaður að fjárhæð 40 milljónir sænskra króna til á þriðja ársfjórðungi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×