Enski boltinn

Tíu mestu hörkutólin í boltanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vinnie Jones er að sjálfsögðu á listanum.
Vinnie Jones er að sjálfsögðu á listanum. Nordic Photos / Getty Images

The Sun tók saman lista yfir tíu mestu hörkutólin sem hafa leikið í Englandi og víðar síðustu áratugi. Vísir birtir listann hér.

Það er ekki hver sem er sem komst inn á listann, heldur annáluð hörkutól sem allir andstæðingar á vellinum óttast. Hörkutól er ekki endilega sá leikmaður sem er hvað duglegastur að safna rauðum spjöldum, heldur frekar sá sem gefur allt sitt í hvern einasta bolta og sýnir engum vægð.

10. sæti: John Terry

Gefur sig allan í leikinn, bæði með Chelsea og landsliðinu. Lætur beinbrot í andliti ekki stöðva sig og er helst mættur á ný í næsta leik. Fékk eitt sinn vænt höfuðhögg frá Abou Diaby, leikmanni Arsenal, í úrslitaleik deildabikarkeppninnar en labbaði út af spítalanum síðar um kvöldið til að taka þátt í fögnuðinum með félögum sínum.

9. sæti: Ron Harris

Annar annálaður varnarjaxl sem lék með Chelsea á sínum tíma. Tæklingin hans á Eddie Gray í úrslitaleik Chelsea og Leeds í ensku bikarkeppninni árið 1970 er fræg og átti hann ríkan þátt í að Chelsea vann titilinn það árið.

8. sæti: Vinnie Jones

Guðfaðir klikkaða gengisins hjá Wimbledon og hefur haldið áfram að leika hörkutól í kvikmyndum eftir að knattspyrnuferlinum lauk. Fræg er myndin af honum þar sem hann grípur um Paul Gasgoicne á viðkæmum stað en toppurinn á ferlinum er sigur Wimbledon í ensku bikarkeppninni árið 1988. Þar fékk Steve McMahon að kenna á honum.

Lið Leeds árið 1975. Fóru langt á keppnisskapinu.Nordic Photos / Getty Images

7. sæti: Norman Hunter

Leikmenn Leeds á áttunda áratugnum voru þekktir fyrir grófan leik á knattspyrnuvellinum. Sá grófasti var sennilega Norman Hunter en var hann þó ekki í slæmum félagsskap. Með honum í liðinu voru til að mynda Jack Charlton, Billy Bremner, Johnny Giles og Allan Clarke.

6. sæti: Roy Keane

Það muna allir eftir tæklingu Roy Keane á Alf-Inge Haaland, leikmanni Manchester City. Það þarf í sjálfu sér ekkert að rökstyðja val hans á þessum lista. Hann var prímusmótorinn í liði Manchester United í mörg ár og þótti þar að auki efnilegur hnefaleikamaður á sínum yngri árum í Cork á Írlandi.

5. sæti: Stuart Pearce

Er enn í dag þekktur undir viðurnefninu „psycho". Í upphafi ferilsins, er hann lék með West Ham, reyndi hann eitt sinn að hlaupa af sér beinbrot í færi. Hann hlaut þó áðurnefnt viðurnefni hjá stuðningsmönnum Nottingham Forest þar sem hann var þekktur fyrir að vera harður í horn að taka en um leið sanngjarn.

4. sæti: Romeo Benetti

Einhver harðasti naglinn í ítölsku úrvalsdeildinni á áttunda áratugnum. Andstæðingur sagði eitt sinn eftirfarandi um hann: „Hann var algjör ótemja. Það skipti engu hvort hann stæði í lappirnar, væri krjúpandi eða liggjandi í grasinu. Ef þú fórst nálægt honum fékkstu alltaf að kenna á því."

3. sæti: Dave Mackay

Þótti sá harðasti þegar knattspyrna þótti alvöru karlmannsíþrótt. Tvífótbrotnaði en sneri til baka og var einn sterkasti leikmaður Tottenham á sjöunda áratugnum. Lauk svo ferlinum hjá Derby við góðan orðstír.

Graeme Souness er efsti maður á lista og kemur það lítið á óvart.Nordic Photos / Getty Images

2. sæti: Andoni Goicoechea

„Slátrarinn frá Bilbao" stóð undir nafni þegar hann tæklaði Diego Maradona svo hrottalega að hann var frá í marga mánuði á eftir. Bernd Schuster, annar leikmaður Barcelona, fékk svo að kenna á honum og uppskar hnémeiðsli.

1. sæti: Graeme Souness

Það er af mörgu að taka af litríkum ferli Souness. Hann lék á sínum tíma í Englandi, Ítalíu og Skotlandi og var duglegur að sanka að sér rauðum spjöldum. Frægast er líklega atvikið þegar hann var þjálfari Galatasaray og skaut niður fána á miðjum heimavelli erkifjendanna í Fenerbahce eftir að Galatasaray vann þá í úrslitum bikarkeppninnar vorið 1996.

Þá er einnig frægur landsleikur Íslands og Skotlands á Laugardalsvelli í maímánuði árið 1985. Þar mættust naglarnir Souness og Sigurður Jónsson og lauk viðskiptum þeirra á þann hátt að sá Sigurður var borinn af velli eftir tæklingu Souness á 26. mínútu. Sigurður meiddist á ökkla og missti af næsta landsleik vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×