Erlent

Lítt þekktur Tyrki mesti hugsuður heims

Fethullah Gülen.
Fethullah Gülen.

Lítt þekktur tyrkneskur stjórnmálamaður og rithöfundur er mesti hugsuður heimsins um þessar mundir samkvæmt könnun sem breska tímaritið Prospect og hið bandaríska Foreign Policy stóðu fyrir á Netinu fyrir skemmstu. Úrslitin voru kunngjörð í dag og samkvæmt áliti netverja eru tíu gáfuðustu menn í heimi allir múslímar.

Aðstandendur könnuninnar bjuggust eflaust við því að hópur nóbelsverðlaunahafa myndi raða sér í efstu sætin en það reyndist ekki að öllu leyti rétt. Samkvæmt breska blaðinu Guardian vann tyrkneski stjórnmálamaðurinnn Fethullah Gülen yfirburðasigur í kosningunni.

Gülen hefur skrifað yfir 60 bækur og stofnað fjölmarga skóla sem leggja áherslu á íslam sem trú umburðarlyndis. Hann hefur verið lofaður fyrir það á Vesturlöndum að stuðla að samtölum trúarbragðanna og lýsti Osama bin Laden sem skrímsli eftir árásirnar 11. september 2001.

Engu að síður telja aðstandendur könnunarinnar að hún hafi verið nýtt í pólitískum tilgangi í Tyrklandi til að afla Gülen og hugmyndum hans í heimalandinu fylgis. Bent er á að stærsta dagblað Tyrklands hafi sagt frá könnuninni og þá segir ritstjóri Prospect, David Goohart, að stuðningsmenn Gülens hafi haft könnunina að engu. Sigur Gülens endurspegli þá togstreitu sem sé í tyrknesku samfélagi milli veraldlegra og geistlegra afla, en Gülen er tengdur stjórnarflokknum AKP sem vill aukinn veg íslam í þjóðskipulaginu.

Gülen er 67 og hefur síðustu tíu ár búið í Bandaríkjunum. Hann var ákærður fyrir að reyna að kollvarpa tyrkneska ríkinu árið 2006 en hreinsaður af þeim ásökunum síðar.

Mohammad Yunus er heimsþekktur fyrir Grameen-bankann og hugmyndirnir um örlánin sem hafa hjálpað miklum fjölda fólks að komast úr fátækt til sjáfsbjargar.MYND/AP

Sem fyrr segir eru tíu múslímar á toppi listans yfir mestu hugsuði heimsins um þessar mundir. Annað sætið skipar friðarverðlaunahafi Nóbels, Bangladessbúinn Muhammad Yunus, í fjórða sæti er tyrkneski rithöfundurinn Orhan Pamuk, sem hlaut fyrir nokkrum árum bókmenntaverðlaun Nóbels, og í því tíunda Shirin Ebadi, mannréttindalögfræðingurinn íranski.

Á eftir henni í 11. og 12. sæti koma svo Bandaríkjamennirnir Noam Chomsky og Al Gore, friðarverðlaunahafi Nóbels. Í 14. sæti er rithöfundurinn Umberto Eco og þar á eftir kemur baráttukonan Ayaan Hirsi Ali. Garry Kasparov skipar 18. sætið og Íslandsvinurinn Slavoj Zizek, heimspekingur frá Slóveníu, það 25. Listann í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×