Erlent

Vesturveldin reyna að stilla til friðar

Sameiginleg sendinefnd Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og NATÓ heldur til Georgíu í kvöld til þess að reyna að stilla til friðar í deilum Rússa og Georgíumanna í Suður-Ossetíu og Abkasíu. Þetta hefur fréttastofa SKY eftir Des Brown, varnarmálaráðherra Breta og segir hann markmiðið að koma á vopnahléi milli stríðandi fylkinga. Georgíumenn hafa lýst yfir stríðsástandi í landinu og segjast þeir hafa brotið á bak aftur árásir í Abkasíu en að bardagar séu enn í gangi við rússneska hermenn í Suður-Ossetíu.

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands er kominn til Norður-Ossetíu, sem er hérað í Rússlandi en Suður-Ossetar vilja sameinast grönnum sínum í norðri. Rússar hafa í dag gert loftárásir á borgina Gori í Georgíu og segja Georgíumenn að Rússar hafi einnig lagt höfnina í Poti við Svartahaf í rúst. Þá fullyrða stjórnvöld í Tblisi að rússneskar orrustuþotur hafi reynt að sprengja Baku-Tblilisi-Ceyhan olíulögnina í sundur en að sú árás hafi mistekist. Lögnin er afar mikilvæg en hún flytur olíu frá Asíu til vesturlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×