Viðskipti innlent

Glitnir gerir ráð fyrir 12,4 prósenta verðbólgu í júní

Ingólfur Bender er forstöðumaður greiningardeildar Glitnis.
Ingólfur Bender er forstöðumaður greiningardeildar Glitnis.

Greiningardeild Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,6 prósent á milli maí og júní og að verðbólga muni aukast lítillega, úr 12,3 prósentum í 12,4.

Það er eilítið meira en fyrri spá bankans gerði ráð fyrir. „Ástæða þess að við spáum nú meiri verbólgu orsakast fyrst og fremst af því að gengi krónunnar hefur gefið eftir á ný sem mun koma fram í verðhækkun vöru með lítinn veltuhraða eins og eldsneyti. Dreggjar verðhækkunar vegna gengislækkunar fyrr á árinu eru enn að dreitla inn í verð innfluttrar vöru en stærsta gusan kom fram í apríl mælingu VNV. Verðhækkun eldsneytis hefur haldið áfram erlendis og áhrif þess verða nokkur í júní. Innlendur kostnaðarþrýstingur er einnig enn til staðar en við reiknum með að það muni draga úr honum þegar líður á árið," segir í Morgunkorni Glitnis.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir nokkuð hratt dragi úr árshraða verðbólgu frá og með haustinu og að hún verði nálægt 8,5 prósentum í árslok. Enn fremur að 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans náist um mitt næsta sumar og verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á seinni hluta næsta árs.

„Forsendur þess að þetta gangi eftir eru fyrst og fremst þær að gengi krónunnar taki að hækka á ný í sumar og að krónan styrkist hægt og bítandi út spátímabilið. Óvissan í þeim efnum er þó í þá átt að það taki erlenda markaði lengri tíma að ná jafnvægi með aðgengi að erlendum lánamörkuðum á nýjan leik, en það er mikilvæg forsenda þess að krónan taki að hressast aftur. Jafnframt skiptir ró á vinnumarkaði miklu. Verði farið af stað með nýjar og meiri launakröfur en þegar hefur verð samið um eykst hættan á víxlverkun launa, verðbólgu og gengis en slíkt myndi óhjákvæmilega hafa aukna verðbólgu í för með sér," segir greiningardeildin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×