Skoðun

Blekkingar Andra Snæs

Tómas Már Sigurðsson skrifar

Andri Snær Magnason birti grein í Fréttablaðinu laugardaginn 18. október, þar sem hann ræðir um útflutningstekjur af áli, einkum frá álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Þar ræðir hann meðal annars um það sem hann kallar „alvarlegar blekkingar" sem beitt sé, þegar sagt er að útflutningstekjur fyrir ál sem flutt er út frá Fjarðaáli séu 70 milljarðar íslenskra króna. Sjálfur gerir Andri Snær sig sekan um stórfelldar blekkingar í greininni og ekki stendur steinn yfir steini í röksemdafærslu hans.

Markaðsátak Andra Snæs vegna væntanlegrar kvikmyndar hans um Draumalandið er greinilega hafið. Ekki er annað hægt en að óska skáldinu til hamingju með að hafa tekist að nýta hugmynd sína til hins ýtrasta um að beita aðferðum áróðurstækni til að ráðast gegn einni mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Spunaverkefnið hófst með útkomu bókarinnar Draumalandsins, í kjölfar hennar var farið í fyrirlestraherferð, stofnaður stjórnmálaflokkur, gefið út borðspil, samið leikrit, bókin gefin út erlendis og nú er kvikmynd væntanleg.

Því miður hafa íslensk orkufyrirtæki, álfyrirtæki, verkfræðistofur og sá mikli fjöldi annarra íslenskra fyrirtækja sem hafa tekjur sínar af því að þjónusta þennan geira, til þessa ekki andæft málflutningi Andra Snæs af nægjanlegum krafti. Þörf er á auknu upplýsingaflæði frá þessum aðilum í framtíðinni.





Útflutningstekjur eru einfalt hugtakEn aftur að grein Andra Snæs í Fréttablaðinu. Hann vill ekki tala um útflutningstekjur því þær gefi ranga mynd af þeim tekjum sem eftir verða í landinu af útflutningi áls. Hugtakið útflutningstekjur var ekki fundið upp á skrifstofum Alcoa eða af fjölmiðlum. Útflutningstekjur eru hugtak sem notað er í allri umræðu um efnahagsmál um allan heim. Hagstofan safnar saman og greinir upplýsingar um útflutningstekjur. Orðið er mjög lýsandi því útflutningstekjur eru einfaldlega þær tekjur sem fyrirtæki sem starfrækt eru í landinu hafa af því að selja vörur sínar og þjónustu til erlendra aðila. Það er ekki flóknara en svo. Það er hins vegar ekki einfalt mál að reikna út hvaða áhrif útflutningur einstakra fyrirtækja hefur á þjóðarbúskapinn. Andri Snær lætur það ekki aftra sér og segir að einföld þekking á heimilisbókhaldi nægi.

9,5 milljarðar í innlend aðföngAndri Snær gefur sér að 400 verkamenn starfi hjá Alcoa Fjarðaáli og meðallaun þeirra séu um fimm milljónir á ári. Fjöldinn er ekki fjarri lagi þó að rétt sé að um 450 manns með fjölbreytta menntun og reynslu starfi hjá fyrirtækinu og meðallaun þeirra séu nokkuð yfir þeirri upphæð sem hann gefur sér. Alvarlegra er að hann gerir ekki ráð fyrir að nokkur launatengd gjöld séu greidd af laununum. Miðað við forsendur Andra Snæs er þessi tala því rúmlega þrír milljarðar króna, en ekki um tveir milljarðar eins og hann heldur fram.

Hann telur heldur ekki með störf hjá verktökum og öðrum aðilum sem þjónusta Alcoa Fjarðaál, en við rekstur fyrirtækisins er lögð áhersla á að útvista ýmsa stoðþjónustu. Yfir 300 verktakar starfa fyrir Fjarðaál á álverslóðinni og mjög varlega áætlað má ætla að fyrirtækið hafi skapað um eitt þúsund störf á landinu. Hér má nefna störf hjá verkfræðistofum, skipafélögum, vélsmiðjum, hugbúnaðarfyrirtækjum, endurvinnslufyrirtækjum og svona mætti lengi telja.

Í greininni ályktar Andri Snær út í bláinn að kaup á innlendum aðföngum vegna starfsemi Alcoa Fjarðaáls, fyrir utan raforku, nemi um einum milljarði króna. Hið rétta er að þessi upphæð er um níu og hálfur milljarður króna. Þar skeikar átta og hálfum milljarði króna. Inni í þessari tölu eru greiðslur til fjölmargra verktaka fyrirtækisins.

Skattgreiðslur í samræmi við lögAndri Snær segir að árið 2007 hafi íslenskur áliðnaður greitt 1,5 milljarð króna í skatt og að Alcoa greiði aðeins 5% skatt af arði. Í þessu sambandi er mikilvægt að benda á að ástæða þess að álfyrirtækin greiða ekki mikinn tekjuskatt er að þau hafa staðið í miklum fjárfestingum á Íslandi undanfarin ár. Fjárfesting Alcoa í álverinu í Reyðarfirði nemur á annað hundrað milljörðum króna síðustu fjögur árin. Þessi fjárfesting er afskrifuð á ákveðnum tíma og afskriftir eru taldar með kostnaði samkvæmt íslenskum skattalögum. Tekjuskatthlutfall Fjarðaáls er hins vegar 15% eins og annarra íslenskra fyrirtækja en Andra Snæ finnst engin ástæða til að taka það fram. Skattur af arði sem greiddur er til hluthafa er hins vegar 5%. Það hlutfall er í samræmi við það sem almennt tíðkast um arðgreiðslur til hluthafa í ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamninga við.

Heildarstuðningur 0,49% en ekki 3,0%Fullyrðingin um að Alcoa hafi fengið milljarða króna styrk frá ríkinu er lífseig, en ríkið hefur aldrei veitt beinan styrk til álversins í Reyðarfirði eins og Andri Snær gefur í skyn. Líklega er Andri Snær að vísa til útreikninga Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem taldi að ákvæði í fjárfestingarsamningi um iðnaðarmálagjald, fasteignaskatt, eignaskatt og fleiri atriði jafngiltu heildarstuðningi við verkefnið upp á 34,3 milljónir Bandaríkjadala til fjörutíu ára, sem er um 3% af stofnkostnaði. ESA gerði ekki athugasemdir við þetta enda ljóst að mörg önnur lönd bjóða fyrirtækjum mun meiri ívilnanir en Ísland til að laða að sér stórar erlendar fjárfestingar.

Vert er að geta þess að frá og með árinu 2008 hefur sveitarfélagið Fjarðabyggð lækkað fasteignaskatt á öllum fyrirtækjum í sveitarfélaginu niður í 1% og eignaskattur hefur verið felldur niður á öllum atvinnurekstri á Íslandi. Eftir standa þá 5,6 milljónir Bandaríkjadala til fjörutíu ára, sem eru um 17 milljónir króna á ári, miðað við núverandi gengi, eða um 0,49% af áætluðum stofnkostnaði árið 2003. Samkvæmt byggðareglum ESA hefði slíkur stuðningur mátt nema allt að 17%.

Vegna viðskiptahagsmuna er orkuverðið sem samið var um á milli Landsvirkjunar og Fjarðaáls ekki gefið upp en eins og kemur fram í ágætri grein Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Landsvirkjunar, í Fréttablaðinu þriðjudaginn 21. október síðastliðinn eru þær upphæðir sem Andri heldur fram fjarri öllu lagi. Jafnvel við núverandi álverð, sem hefur lækkað um 35% frá því í sumar, má gera ráð fyrir að Landsvirkjun muni borga Kárahnjúkavirkjun niður hraðar en gert var ráð fyrir í upphafi. Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á að jafnvel þó að hann hefði rétt fyrir sér í því að allar greiðslur til Landsvirkjunar rynnu beint úr landi, gleymir hann að taka fram að á móti kemur eignamyndun í virkjunum hér á landi. Það er þó fjarstæða að gera ráð fyrir því að allar tekjur Landsvirkjunar af orkusölu fari í að greiða erlendar skuldir og enn fjarstæðukenndara er að gera ráð fyrir að sjávarútvegur og ferðaþjónusta séu skuldlausar greinar við erlenda lánardrottna. Þessar greinar eru þó mjög mikilvægar íslensku atvinnulífi, ekki síður en áliðnaðurinn.

Yfir þriðjungur tekna eftir á ÍslandiIðnaðarráðherra svaraði nýlega á Alþingi fyrirspurn um framlag áliðnaðarins til þjóðarbúsins. Í svari hans kom fram að áætla megi að um þriðjungur tekna álveranna á Íslandi verði eftir í landinu. Óhætt er að fullyrða að það sé mjög varlega áætlað. Þær tölur sem Andri Snær heldur fram eru hins vegar meira og minna rangar og hann leyfir sér að saka aðra um blekkingar.

Höfundur er forstjóri Alcoa á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×