Innlent

Efnahagsáætlun í smíðum vegna viðræðna við IMF

Íslensk stjórnvöld vinna nú að efnahagsáætlun sem lögð verður til grundvallar í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF).

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun en blaðið segir það ráðast í vikunni hvort óskað verði eftir aðstoð sjóðsins. Árni Mathíesen fjármálaráðherra fundar í dag með fulltrúum sjóðsins í Washington en ráðherrann hefur sótt ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans.

Geir Haarde forsætisráðherra hefur sagt að engin formleg ákvörðun verði tekin um umsókn um aðstoð úr sjóðnum fyrr en Árni snýr heim á miðvikudag. Sjóðurinn skilaði af sér skýrslu um Ísland í sumar þar sem horfur landsins voru taldar öfundsverðar. Áhersla var þó lögð á markaðsvæðingu íbúðalánasjóðs auk þess sem ríkissjóður ætti að draga úr útgjöldum.

Fulltrúar frá sjóðnum hafa verið hér á landi undanfarið og sagði fjármálaráðherra í gær að beðið væri eftir niðurstöðum rannsókna þeirra áður en ákvörðun verður tekin í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×