Viðskipti erlent

IMF: Alvarleg niðursveifla um allan heim

MYND/365

Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir októbermánuð segir að hagkerfi heimsins sé að hægja á sér og það snögglega. Fjármálakreppan sem dunið hefur yfir heiminn og hátt verð á orku og neysluvörum gerir það að verkum að heimsbyggðin glímir nú við verstu kreppu síðan á fjórða áratugi síðustu aldar. Mörg þróuð iðnríki eru á barmi kreppu. Sjóðurinn telur þó að líkurnar á heimskreppu séu litlar sem engar, en undan miklum samdrætti verði ekki komist.

Í skýrslunni segir einnig að mörg ríki sem hafi verið á þróunarbrautinni síðustu áratugi glími nú við vandann eftir margra ára hagvöxt. Aðalhagfræðingur sjóðsins, Olivier Blanchard, leggur áherslu á mikilvægi þess að ríki heimsins takist nú á við vandann í samstilltu átaki. Að hans mati má búast við því að ástandið batni um mitt næsta ár, að því gefnu að þjóðum heimsins beri gæfa til að takast á við vandann í sameiningu. Þannig megi afstýra heimskreppu.

Blanchard sagði á blaðamannafundi sem haldinn var í dag að leiðtogar Evrópu ættu í nokkrum erfiðleikum með að sættast á hvaða leið sé best að fara, en að ástandið á fjármálamörkuðum væri að þröngva þeim til þess að taka ákvörðun.

IMF hefur á síðustu dögum endurskoðað hagspár ríkja víðsvegar um heiminn til verri vegar auk þess sem sjóðurinn metur nú skaðann af undirmálslánakrísunni mun meiri en áður var talið. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×