Erlent

Púsluðu sig inn í heimsmetabókina

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Fimmtán þúsund púsláhugamenn hafa nú lokið við að púsla saman stærsta púsluspili heims sem vitaskuld er staðsett í Ravensburg í Þýskalandi, heimabyggð hins góðkunna púslframleiðanda Ravensburger AG.

 

Púsluspilið þekur eina 600 fermetra á torgi í miðbænum og telur 1.141.800 bita. Að sjálfsögðu er um heimsmet að ræða og fellur fyrra heimsmet í þessum efnum rækilega í skuggann af því en þar var um að ræða 212.000 bita spil sem raðað var saman í Singapore árið 2002.

 

Ekki voru allir púslararnir 15.000 þó saman komnir á torginu heldur var framkvæmdin sú að þeir púsluðu hver fyrir sig saman rúmlega 4.000 litlum 252 bita púsluspilum. Þau voru svo fest saman á torginu til að mynda heildarstykkið mikla. Íbúar Ravensburgar eru þekktir fyrir áráttukennda púslhegðun sína en þeim þykir fátt skemmtilegra en að fást við þrautir af því tagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×