Enski boltinn

Ársskýrsla Deloitte: Enska úrvalsdeildin í sérflokki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Chelsea eru vel launaðir.
Leikmenn Chelsea eru vel launaðir. Nordic Photos / Getty Images
Ársskýrsla Deloitte um fjármál knattspyrnuheimsins sem birtist í dag sýnir að enska úrvalsdeildin ber höfuð og herðar yfir aðrar knattspyrnudeildir í Evrópu.

Tekjur ensku úrvalsdeildarinar tímabilið 2006-7 voru 2,3 milljarðar evra sem er ellefu prósenta tekjuaukning frá keppnistímabilinu þar á undan. Heildartekjur ensku úrvalsdeildarinnar voru 0,9 milljörðum evra meiri en næsta deild þar á eftir, þýsku úrvalsdeildinni.

Í fyrsta sinn í fimm ár var enska úrvalsdeildin með mestu tekjurnar í öllum þremur lykilþáttunum sem skoðaðir eru - tekjum á leikdegi, af sjónvarpstekjum og auglýsingatekjum.

Hins vegar er enska úrvalsdeildin ekki með mesta rekstrarhagnaðinn en það er í fyrsta sinn sem það gerist síðan að Deloitte hóf úttektir sínar. Mesti rekstarhagnaðurinn var í þýsku úrvalsdeildinni eða 250 milljónir evra. Enska úrvalsdeildin kemur næst með 141 milljónir evra í rekstrarhagnað.

Þýska úrvalsdeildin var einnig með minnsta hlutfallið (45%) af launakostnað af heildarveltu félaganna í deildinni af fimm stærstum deildum Evrópu - Englandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Frakklandi. Annars var hlutfall hinna deildanna á milli 62 og 64 prósenta.

Í fyrsta sinn í sjö ár jókst launakostnaður allra félaganna í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2006-7. Launakostnaður Chelsea jókst mest, um nítján milljónir punda en í öðru sæti er Íslendingaliðið West Ham. Björgólfur Guðmundsson og Eggert Magnússon keyptu félagið árið 2006 og jókst launakostnaður liðsins það tímabil um þrettán milljónir punda.

Roman Abramovich, eigandi Chelsea, er í algjörum sérflokki. Þegar tímabilinu lauk vorið 2007 hafði hann lagt 575 milljónir punda í félagið sem er langstærsta framlag einstaklings í eitt knattspyrnufélag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×