Viðskipti erlent

Salan á hlut sænska ríkisins í Nordea frestast

Kreppan á fjármálamörkuðum heimsins gerir það að verkum að salan á tæplega 20% hlut sænska ríkisins í stórbankanum Nordea frestast. Og raunar eru líkur á að við núverandi stöðu muni sænska hægristjórnin falla á tíma með söluna.

Eins og Vísir hefur áður greint frá hefur finnska tryggingarfélagið Sampo tekið stöðu í Nordea með 10% eignarhlut. Sampo er aftur á móti að stórum hluta í eigu Exista.

Björn Wahlroos forstjóri Sampo hefur ítrekað lýst yfir áhuga sínum á því að kaupa hlut sænska ríkisins. Talið er að hann vilji búta bankann upp, selja hluta hans og setjast sem stjórnarformaður yfir því sem eftir verður.

Ef salan á eignarhlutnum dregst mikið frameftir árinu gæti svo farið að sænska stjórnin félli á tíma með hana. Samkvæmt könnunum munu jafnaðarmenn ná aftur völdum í Svíþjóð árið 2010 og vitað er að þeir hafa engan áhuga á að selja í Nordea.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×