Innlent

Ofbeldið getur haft alvarleg áhrif á andlega líðan barnanna

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi.
„Það má gera ráð fyrir að vanræksla og ofbeldi geti haft mjög alvarlegar afleiðingar," segir dr. Berglind Guðmundsdóttir, sálfræðingur hjá áfallamiðstöð Landspítalans.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi í gær frá alvarlegu heimilisofbeldi í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Þrjú börn sættu ofbeldi af hendi foreldris og var hnífum kastað að einu þeirra.



Áhrifin mikil fyrst

Berglind segir það þekkt út frá rannsóknum að áhrif áfalla séu gjarnan mikil fyrst og svo sé misjafnt hvernig fólk nái að vinna úr þeim. Það sé ekkert sjálfgefið að áhrifin verði varanleg. „Sumir þurfa langvarandi meðferð og jafnvel ná sér aldrei, en aðrir ná að vinna farsælt úr sínum málum," segir Berglind í samtali við Vísi.



Börnin endurupplifa atburðinn

Hún segir að eðlileg viðbrögð sem sjáist fyrst eftir alvarleg áföll séu endurupplifanir, til dæmis í formi myndbrota eða martraða. Fólk geti jafnframt átt erfitt með svefn og einbeitingu og óttast umhverfi sitt. Þegar börn séu annars vegar verði hegðun þeirra oft æst og ruglingsleg. „Það getur komið út eins og þau séu með athyglisbrest og ofvirkni," segir Berglind. Hún bendir á að börn forðist gjarnan að tala um áföllin og forðist allt sem minni á atburðin, hvort sem það eru aðstæður, fólk, hljóð, eða annarskonar áreiti. „Þessi viðbrögð eru eðlileg fyrst á eftir," segir Berglind og bendir að sá sem verði fyrir áfallinu þurfi að geta unnið úr atburðinum, sem felur í sér að rifja hann upp og ræða um hann.



Viðbrögðin mismunandi

Berglind segir að viðbrögð barna geti verið mjög mismunandi. Sum börn sýni árásargjarna hegðun, önnur börn verði hlédræg og svo geti viðbrögðin verið einhversstaðar þarna á milli. Þau geti jafnframt fundið fyrir þunglyndi og annarskonar kvíða. Önnur vandamál geti jafnframt komið upp.

Berglind bendir jafnframt á að aðlögunarhæfni manna sé misjöfn. „Sum börn hafa bara gríðarlega öfluga aðlögunargetu," segir Berglind. Hún bendir á að börn þurfi mikinn stuðning og gott umhverfi til að vinna úr áföllum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×