Viðskipti erlent

Skuldatryggingar íslensku bankanna settar á uppboð

Skuldatryggingar á lán og skuldir íslensku bankanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, verða settar á uppboð í næstu viku. Heildarupphæðin sem tryggingarnar ná yfir nemur 71 milljarði dollara eða tæplega 8.000 milljörðum kr..

Það er Depository Trust & Clearing Corp. (DTCC) sem hefur ákveðið að setja þessar tryggingar á uppboð en fyrirtækið hefur umsjón með megninu af skuldatryggingum heimsins.

Í tilkynningu frá DTCC segir að upphæðin skiptist þannig að 19,2 milljarðar dollara séu hjá Landsbankanum, 18,5 milljarðar dollara hjá Glitni og 34,5 milljarðar dollara hjá Kaupþingi.

Að teknu tilliti til þeirra stóru kaupenda sem hafa komið sínum tryggingum í lóg, það er voru bæði kaupendur og seljendur á þessum tryggingum, mun nettó-upphæðin sem fer á uppboðið nema 14,8 milljörðum dollara eða rúmlega 1.500 milljörðum kr..

Þess má geta að á svipuðu uppboði með skuldatryggingar hjá Washington Mutual í síðustu viku kom í ljós að þar fengust að jafnaði 57 sent fyrir dollarann.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×