Innlent

Atvinnulausum fjölgar um fimmtíu á dag

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar

Rúmlega 40 til 50 einstaklingar skrá sig atvinnulausa á degi hverjum hjá Vinnumálastofnun, að sögn Gissurar Péturssonar forstjóra stofnunarinnar. Undanfarna mánuði hefur þeim sem skrá sig atvinnulausa fjölgað mest í kringum mánaðarmót. Frá því að fregnir bárust af falli bankanna fyrir rúmum tveimur vikum hefur skráningum atvinnulausra fjölgað mikið.

Vegna fjármálakreppunnar er aukið álag á starfsmenn og starfsemi Vinnumálastofnunar. ,,Álagið er að aukast á okkar stofnun samhliða fjölgun þeirra sem sækja um atvinnuleysisbætur," segir Gissur.

Vinnumálastofnun er einnig vinnumiðlun og þar er boðið uppá einstaklingsbundna ráðgjöf. Dæmi eru um að einstaklingar sem mætt hafa mánaðarlega í viðtal hafi verið sagt í vikunni að mæta næst í byrjun febrúar eftir fjóra mánuði.

Stofnunin hefur þurft að breyta verkalagi sínu og forgangsraða á nýjan hátt. Að sögn Gissurar er áhersla lögð á að taka á móti umsóknum þeirra sem sækja um atvinnuleysisbætur og vinna úr þeim. Einnig er fyrirhugað að styrkja vinnumiðlun og ráðgjöf með öðrum hætti.

Gissur segir að enn sé talsvert um laus störf og eftirspurn eftir fólki. ,,Þetta eru auðvitað ekki bankastörf en allt er betra en að sitja aðgerðalaus."

Aðspurður hvort að fjölga þurfi starfsfólki Vinnumálastofnunar segir Gissur: ,,Við þurfum aukið fjármagn og bæta við fólki til að vinna úr umsóknum. Til að mynda þurfum við að styrkja einingu okkar á Skagaströnd sem reiknar út atvinnuleysisbætur."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×