Viðskipti innlent

Alfesca hefur áhyggjur af erfiðri greiðslumiðlun til og frá landinu

Alfesca hefur áhyggur af því að erfiðleikar við greiðslumiðlun til og frá landinu muni hafa áhrif á greiðslu félagsins á skuldabréfi þann 15. nóvember n.k..Þetta kemur fram í greinargerð til Fjármálaeftirlitsins.

Í greinargerðinni segir að þótt Alfesca sé skráð í íslensku kauphöllinni hafa sviptingarnar í íslenskum efnahagsmálum ekki haft bein áhrif á rekstur Alfesca enda er félagið ekki með neina sölustarfsemi á Íslandi. Helstu markaðir félagsins eru á meginlandi Evrópu og þá sérstaklega í Bretlandi, Frakklandi og á Spáni.

Heildarsala Alfesca á fjárhagsárinu 2007/08 nam 647,4 milljónum evra og hafði aukist um 9% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir nam 62,5 milljónum evra eða um 10 milljörðum kr. sem er 22% aukning frá fyrra ári. Nettóskuldir félagsins 30. júní 2008 námu 166,7 milljónum evra.

Þar sem helstu viðskiptagjaldmiðlar Alfesca eru evra og sterlingspund hefur gengisfall íslensku krónunnar hvorki haft áhrif á afkomu félagsins né fjárhagsstöðu þess.

„Þann 15. nóvember næstkomandi ber Alfesca að greiða skuldabréf í íslenskum krónum að fjárhæð sem svarar til um 12 milljóna evra eða tæplega 2 milljörðum kr... Ennfremur eru íslensk skuldabréf að fjárhæð sem samsvarar um 3 milljónum evra,eða tæplega 500 milljónum kr. á gjalddaga 1. Febrúar 2009 í samræmi við skilmála skuldabréfanna.

Alfesca hefur þegar tryggt fjármagn til greiðslu þessara skuldabréfa. En vegna takmarkana og tæknilegra erfiðleika í tengslum við erlenda greiðslumiðlun á Íslandi er sú hætta fyrir hendi að tafir kæmu upp og að umræddar upphæðir verði ekki millifærðar á gjalddaga. Alfesca vinnur nú að lausn málsins í samvinnu við íslenskar fjármálastofnanir," segir í greinargerðinni.

Þess má geta að í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum telur stjórn Alfesca viðeigandi að félagið haldi í fjármuni sína. Þess vegna hefur stjórnin ákveðið að mæla ekki með greiðslu 12 milljóna evra arðs vegna fjárhagsársins 2007/08 á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 18. nóvember næstkomandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×