Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Fjögur gengi í gangi og svikamyllur mögulegar

Friðrik Indriðason skrifar skrifar

 

Eftir að Seðlabankinn ákvað í morgun að fastsetja gengi krónunnar á millibankamarkaði tímabundið í morgun eru í raun fjögur gengi í gangi á markaðinum.

Fyrir utan gengi Seðlabankans eru svo bankarnir með annað gengi til viðskiptavina, greiðslukortafyrirtæki hafa þriðja gengið til viðskipta sinna og erlendir bankar eru svo með fjórða gengið.

Í þessari ringulreið sem skapast hefur er evran skráð frá 131 kr. hjá Seðlabankanum og upp í um eða yfir 200 krónur hjá erlendum bönkum og fjármálastofnunum, það er þeim sárafáu sem enn versla með krónuna.

Fyrir þá sem hafa góðan aðgang að kaupum og sölu á evru eða öðrum gjaldmiðlum er gósentíð í gangi. Þeir geta keypt evru fyrir krónur þar sem hún er ódýrust og selt hana fyrir krónur þar sem hún er dýrust. Og þessi svikamylla getur gengið endalaust meðan að þetta ástand varir.

Það er gríðarleg eftirspurn eftir evrum, eða öðrum gjaldmiðlum, á millibankamarkaðinum hér. Vísir hefur heimildir fyrir því að Seðlabankinn hafi aðeins sett 4 milljónir evra inn á markaðinn eftir tilkynningu sína um fasta gengið, og það í tveimur 2 milljóna evra slumpum.

Einn viðmælenda vísir.is segir að þetta sé eins og að henda tveimur hnetum inn á markað þar sem eftirspurn megi líkja við tvo 40 feta gáma af melónum.

Bloomberg-fréttaveitan fjallar um fastgengi Seðlabankans í umfjöllun sinni um atburði dagsins á Íslandi. Þar kemur fram að þegar gengið var sett fast í 131 krónur fyrir evru hafi gengið verið 200 krónur hjá Nordea Bank AB. Þarna er um 53% mun að ræða.

Lars Christiansen gjaldmiðlasérfræðingur hjá Danske Bank segir í samtali við Bloomberg að ákvörðun Seðlabankans hafi komið sér verulega á óvart. „Þetta fastgengi er engan veginn trúverðugt," segir Christiansen. „Trúverðugt fastgengi þarf trúverðugar ráðstafnir til að koma jafnvægi á efnahagslífið og það höfum við ekki séð ennþá."

 






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×