Erlent

Mun gera allt til að bjarga breskum mörkuðum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Breski forsætisráðherrann Gordon Brown segist grípa til allra ráða sem þurfi til að halda breskum fjármálamörkuðum á réttum kili eftir að Bandaríkjaþing hafnaði björgunarsjóðnum.

Þetta kom fram í neyðaryfirlýsingu forsætisráðherrans í gær eftir að fregnir bárust af afstöðu bandaríska þingsins. Brown sagði umfangsmiklar ráðstafanir þegar hafa verið gerðar til að halda stöðugleika á mörkuðunum en áður hafði hann látið í veðri vaka að hann myndi ekki grípa til neinna aðgerða fyrr en ljóst yrði hvort afstaða bandaríska þingsins kæmi harkalega niður á fjármálamörkuðum Bretlands.

Það leið þá ekki á löngu uns mikil lækkunarhrina fór af stað og viðurkenndi Brown í ávarpi sínu að mörkuðunum væri vissulega ógnað. Hann lagði áherslu á að sérstaklega yrði reynt að tryggja fjárhagslegt öryggi einstaklinga og fjölskyldna en búist er við að Financial Times Stock Exchange-vísitalan breska taki myndarlega dýfu í dag. Gordon Brown hefur sent Hvíta húsinu skeyti þar sem hann hvetur Bush til að grípa til þeirra aðgerða sem duga megi til að bjarga því sem bjargað verður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×