Viðskipti erlent

Gordon Brown vissi af vandamálum Íslands þegar í mars

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands og Englandsbanki vissu um komandi fjármálakreppu á Íslandi þegar í mars-mánuði í ár. Stjórnarandstaðan á breska þinginu krefst nú rannsóknar á málinu.

Samkvæmt frétt í breska blaðinu Independent kemur fram að þótt að bresk stjórnvöld og Englandsbanki vissu af komandi bankahruni á Íslandi hafi verið ákveðið að aðvara ekki breska innistæðueigendur vegna ótta um að það leiddi til hruns bankana þá og þegar.

Ennfremur kemur fram að Brown ræddi um málið við Geir Haarde forsætisráðherra um málið þann 25. apríl. Í því samtali mun Brown hafa hvatt Geir til að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Á sama tíma og þeir Brown og Geir ræddust við fyrirskipaði Mervyn King bankastjóri Englandsbanka rannsókn á stöðu fjármálalífsins á Íslandi.

King hafnaði síðar beiðni frá Seðlabanka Íslands um lánafyrirgreiðslu með þeim rökum að bankakerfi Íslands væri "alltof stórt".

Haft er eftir Vince Cable talsmanni Frjálslyndra Demókrata á breska þinginu að það athyglisvert að Englandsbankastjóri vissi af því á þessum tíma að íslensku bankarnir væru í svo hættulegri stöðu að erfitt gæti verið að bjarga þeim..."og samt voru þessar upplýsingar virtar að vettugi", eins og hann orðar það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×