Innlent

Síld fyrir tólf milljarða við Stykkishólm

Síldarævintýrið á Breiðafirði gæti á næstu vikum skilað tólf milljarða króna útflutningsverðmæti í þjóðarbúið. Stjórnvöld eru hvött til þess að auka síldarkvótann.

Síldveiðiskipin mokuðu upp silfri hafsins við Stykkishólm í gær og bendir flest til þess að sagan frá því í fyrra endurtaki sig en þá var meginhluti kvótans veiddur við innanverðan Breiðafjörð, einkum á Grundarfirði. Þessa óvæntu veiði á ókunnum síldarslóðum skýrir Jakob Jakobsson fiskifræðingur með því að íslenska sumargotssíldin velji sér breytilegar vetrarstöðvar, gjarnan kaldan og lygnan sjó. Þar syndi hún lítið og spari orku fram á vor. Frægt sé fyrir sextíu árum þegar síldin hafði vetrarstöðvar í Hvalfirði, á níunda áratugnum var hún inni á Austfjörðum og nú finni hún hentugar aðstæður við Breiðafjörð. Síldin þaðan verður væntanlega unnin í Vestmannaeyjum, Hornafirði, Fáskrúðsfirði, Neskaupsstað og á Vopnafirði og þar breytt í matvæli fyrir íbúa í Austur-Evrópu. Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar býst við að nær allur kvótinn, 150 þúsund tonn, veiðist á Breiðafirði á næstu vikum, og áætlar hann að útflutningsverðmætið geti orðið tólf milljarðar króna. Hann hvetur til þess að kvótinn verði aukinn og telur óhætt að veiða 30 til 50 þúsund tonn til viðbótar. Sjómennirnir finna til sín við gjaldeyrisöflunina og segir Þorkell Pétursson, stýrimaður á Bjarna Ólafssyni AK, að nú sé greinin ekki lengur númer tvö, - heldur númer eitt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×