Viðskipti erlent

Seðlabanki ESB mun verja dönsku krónuna fram í rauðan dauðan

Fari svo að Seðlabanki Danmerkur geti ekki varið gengi dönsku krónunnar mun Seðlabanki Evrópu gera slíkt fram í rauðan dauðan. Stýrivaxtahækkun Seðlabanka Danmerkur í dag, þvert á ástand efnahagsmála, var til að bregðast við miklu útstreymi gjaldeyris frá landinu.

Í frétt um málið á börsen.dk. segir að gengi dönsku krónunnar sé nú bundið við evruna þannig að 7,4 dkr. eru í evrunni. Þetta gengi má svo sveiflast 2,25% í hvora átt.

Allan von Mehren gjaldmiðlasérfræðingur hjá Danske Bank segir að seðlabanki landsins muni sjálfur verja gengi krónunnar en fari svo að gengið lækki undir framangreind viðmiðunarmörk muni Seðlabanki Evrópu koma til og nota eins mikið fé og þarf til að halda genginu stöðugu.

"Það er hluti af gjaldmiðlasamstarfi okkar að ESB veitir okkur 100% stuðning ef á þarf að halda," segir von Mehren sem telur að bankarnir báðir séu nú í nánu sambandi vegna stöðunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×