Viðskipti erlent

„Gamla kreppan“ 79 ára í dag

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Fólk safnast saman á Wall Street í lok október 1929 þegar tíðindin af hruninu fara sem eldur í sinu.
Fólk safnast saman á Wall Street í lok október 1929 þegar tíðindin af hruninu fara sem eldur í sinu. MYND/AP

Í dag eru 79 ár frá „svarta fimmtudeginum" 24. október 1929 sem margir telja að hafi markað upphaf heimskreppu fjórða áratugar 20. aldarinnar. Aðrir miða upphaf kreppunnar við „svarta þriðjudaginn" sem var 29. október og hafa báðir hópar nokkuð til síns máls. Kreppan sem hófst haustið 1929 átti sér þó í raun engan einn upphafsdag.

Í raun mætti með nokkrum rökum eins halda því fram að heimskreppan hafi hafist mun fyrr haustið 1929 en 3. september hafði Dow Jones-hlutabréfavísitalan náð þeim hæðum sem síðan áttu ekki eftir að sjást lengi - 381,17 stigum - og hafði hún þá fimmfaldast á síðastliðnum fimm árum en þensluár þriðja áratugarins, „the roaring twenties", áttu sér engin fordæmi.

Sprengingar urðu í kvikmyndatækni, útvarpi, efnafræði og síðast en ekki síst framleiðslu bifreiða sem hinn almenni launaþræll gat nú í fyrsta sinn eignast. Henry Ford seldi fimmtán milljónasta T-Fordinn í Bandaríkjunum árið 1927 en til samanburðar voru 1,9 milljónir bifreiða skráðar í öllu Kanada árið 1929.

Það sem fer upp...

Eins og útrásinni ævintýralegu hlaut að ljúka hlaut þensla þriðja áratugarins einnig að enda með hvelli. Lækkunin sem hófst 3. september leiddi að lokum til gríðarlegs verðhruns 24. október þegar óttaslegnir fjárfestar seldu 12,9 milljónir hlutabréfa á einum degi.

Klukkan eitt eftir hádegi föstudaginn 25. október funduðu bankastjórar stærstu Wall Street-bankanna um ástandið. Þann fund sátu meðal annars Thomas W. Lamont frá Morgan, Albert Wiggin frá Chase National Bank og Charles E. Mitchell frá National City Bank. Þeir kusu Richard Whitney, aðstoðarforstjóra kauphallarinnar, sem aðgerðastjóra sinn. Aðgerðir hans fólust í að bjóða í stóran hluta bréfa í US Steel og öðrum iðnfyrirtækjum á yfirverði sem nægði til að stöðva skriðuna í bili.

Björgun Whitneys reyndist skammgóður vermir. Helgarblöðin birtu ítarlegar frásagnir af atburðarásinni á Wall Street og mánudaginn 28. október fór af stað hlutabréfasöluskriða sem lækkaði Dow Jones-vísitöluna um 13 prósentustig en slík lækkun hafði ekki áður sést einn og sama daginn. Salan náði svo hámarki „svarta þriðjudaginn" 29. október þegar 16 milljónir hlutabréfa seldust og markaðurinn hrundi. Heimskreppa hófst.

Tíföld fjárlög Bandaríkjanna

Tólf ár liðu þar til Dow Jones-vísitalan hafði á ný náð 381 stigi en hún fór lægst niður í 41 stig árið 1931. Af 25 þúsund viðskiptabönkum í Bandaríkjunum fóru 11 þúsund á hausinn, atvinnulausum fjölgaði úr tæplega tveimur milljónum árið 1929 í 12,8 milljónir árið 1933.

Erfitt er að nefna dollaratölur til að gefa mynd af því sem tapaðist á hlutabréfamarkaðnum á innan við viku í lok október 1929. Tapið nam 30 milljörðum dollara þessa daga, upphæð sem ef til vill fáum vex í augum haustið 2008. Til að setja þetta í samhengi má geta þess að á innan við viku töpuðust tíföld fjárlög bandaríska ríkisins og mun hærri upphæð en öll fyrri heimsstyrjöldin kostaði Bandaríkin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×