Viðskipti erlent

Íbúðalánum fækkar um 77% á milli ára

Íbúðalán innlánsstofnana í aprílmánuði voru 104 talsins og fækkaði um 5 frá fyrri mánuði. Í apríl fyrir ári síðan voru íbúðalán hinsvegar 461 talsins og hefur þeim því fækkað um 77% á milli ára.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að íbúðalán á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs eru 467 talsins eða litlu fleiri en þau voru í apríl mánuði einum saman á síðasta ári. Íbúðalánum innlánastofnanna hefur nú fækkað um 705 á fyrstu fjórum mánuðum ársins samanborið við sama tímabil fyrir ári síðan.

Greiningin segir að flest bendi til þess að veruleg kólnun hafi orðið á íbúðamarkaði. Upplýsingar um fermetraverð íbúðahúsnæðis frá Fasteignamati ríkisins sýnir að það sem af er ári hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 1,5%. Þá sýna mælingar Hagstofunnar frá því í morgun að húsnæðisverð á landinu öllu hafi lækkað um 0,8% frá fyrri mánuði.

Þá hafa umsvif á fasteignamarkaði einnig dregist verulega saman eins og sjá má á fjölda þinglýstra samninga. Í apríl síðastliðnum var 298 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu en á sama tíma fyrir ári var fjöldi kaupsamninga 845.

Þessar vísbendingar bend að mati greiningarinnar til þess að hröð kólnun sé í kortunum og að útlit sé fyrir að sá samdráttur sem um langt skeið hefur verið yfirvofandi á íbúðamarkaði sé nú hafin. Við gerum ráð fyrir að fasteignaverð muni lækka um 7% á þessu ári að nafnvirði og um það bil 15% að raunvirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×