Viðskipti innlent

Telur ekki útilokað að stýrivextir hækki frekar á næstunni

Greining Glitnis telur ekki útilokað að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir frekar á næstu vikum. Meginatriðið í því er hvernig muni ganga að fleyta krónunni.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að markmiðið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) setti fram með ríkisstjórninni nú fyrir helgi er að halda krónunni stöðugri. Með þeim hætti ætti verðbólgan að hjaðna hratt á næstunni. Vaxtahækkunin er ætluð til þessa og hluti af áætlun IMF og stjórnvalda að aflétta hömlum á gjaldeyrismarkaði og fleyta krónunni á næstunni en með háum vöxtum er líklegra að hún verði varin frekara falli.

Seðlabankinn segir að framleiðsluslaki og jafnvægi eða afgangur í utanríkisviðskiptum munu stuðla að hækkun á gengi krónunnar að því tilskildu að traust hafi skapast á gjaldeyrismarkaði. Gangi það eftir að halda krónunni stöðugri og jafnvel styrkja hana má reikna með því að verðbólgan hjaðni hratt þegar kemur fram á næsta ár.

Reikna má með því að bankinn muni halda vöxtum háum vel fram yfir áramót en forsendur fyrir hraðri lækkun stýrivaxta mun skapast með ört hjaðnandi verðbólgu á næsta ári. Vaxtaákvörðunardagur bankans er eftir níu daga en samhliða mun bankinn birta nýja verðbólgu- og efnahagsspá.

Innlend eftirspurn þarf ekki hjálp við að hverfa þessa daganna. Atvinnuleysið hefur stigið hratt undanfarið, væntingar minkað umtalsvert og samdráttur er verulegur í allri neyslu og fjárfestingu. Vaxtahækkunin er því ekki til að hjálpa til við að berja þróttinn úr innlendri eftirspurn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×