Viðskipti erlent

Næststærsta banka Þýskalands bjargað

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa komist að samkomulagi við samtök þýskra fjármálafyrirtækja um að bjarga íbúðabankanum Hypo Real Estate, næststærsta banka landsins. Frá þessu var greint í kvöld.

Fyrr í dag bárust fréttir af því að bankinn stefndi í gjaldþrot þar sem snuðra hefði hlaupið á þráðinn í viðræðum þýskra yfirvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um bankann. Stjórnvöld og bankarnir reiða fram 50 milljarða evra, jafnvirði um 7500 milljarða króna, til að bjarga bankanum.

Fyrr í dag sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að allt yrði gert til þess að bjarga bankanum og að innistæður Þjóðverja í bönkum yrðu tryggðar. Í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu í kvöld kom fram að með samkomulaginu yrði staða bankans tryggð og staða Þýskalands sem stöndugs fjármálalands sömuleiðis á erfiðum tímum.

Þá greinir Breska ríkisútvarpið einnig frá því að franski risabankinn BNP Parisbas hafi staðfest að hann hyggist yfirtaka Fortis-bankann sem Benelux-löndin björguðu á dögunum. Þá getur BBC þess að á Íslandi vinni stjórnvöld að því í nótt að tryggja stöðu bankakerfisins hérlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×