Viðskipti erlent

Stýrivextir hækkaðir í Danmörku þrátt fyrir versnandi efnahag

Danski seðlabankinn hækkaði í dag stýrivexti sína í annað skiptið frá upphafi mánaðar þrátt fyrir versnandi efnahagshorfur í Danmörku.

Stýrivextir í Danmörku eru nú 5,5% eftir 0,5 prósentustiga hækkun í morgun. Munar 1,75 prósentustigum á dönskum vöxtum og stýrivöxtum á evrusvæði.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að ástæða vaxtahækkunarinnar sé fastgengi dönsku krónunnar gagnvart evru, en þrýstingur hefur verið á dönsku krónuna gagnvart evrunni þrátt fyrir hærri stýrivexti í Danmörku en á evrusvæði.

Þrýstingnum veldur alvarlegt ástand á fjármálamörkuðum í Evrópu og tregða banka til að lána skammtímafjármagn sín í millum. Þannig hafa skammtímavextir í evrum á millibankamarkaði verið hátt yfir stýrivöxtum, líkt og raunin er með aðrar helstu myntir, á meðan millibankavextir í dönskum krónum hafa haldist öllu nær stýrivöxtum.

Auk þess færa fjárfestar eignir sínar nú í verulegum mæli úr smærri myntum í þær stærstu vegna geysilegrar áhættufælni á mörkuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×