Erlent

Bætur vegna Exxon Valdez slyssins lækkaðar

Exxon Valdez slysið er meðal mestu umhverfisslysa sögunnar.
Exxon Valdez slysið er meðal mestu umhverfisslysa sögunnar.

Hæstiréttur Bandaríkjanna lækkaði í dag þær bætur sem olíufélagið Exxon Mobil þarf að greiða vegna olíuslyss sem varð undan ströndum Alska árið 1989 þegar risaolíuflutningaskipið Exxon Valdez strandaði.

Um 400 milljónir lítra af olíu láku í sjóinn og dreifðist hún um 1900 kílómetra meðfram ströndum Bandaríkjanna. Þetta hafði þær afleiðingar að þúsundir sjávarspendýra og hundruð þúsunda fugla drápust og fiskimið spilltust.

Um 32 þúsund fiskimenn fóru í mál við Exxon Mobil vegna þessa og undirréttur hafði dæmt félagið til að greiða 2,5 milljarða dollara, um 200 milljarða króna, í bætur. Hæstiréttur lækkaði þá upphæð í dag í 500 milljónir dollara, jafnvirði um 40 milljarða króna, eða sem nemur raunverulegum skaða vegna slyssins eins og það er orðað.

Erlendir miðlar greina frá því að tekjur Exxon Mobil hafi í fyrra verið um 3200 milljarðar króna og því virðist fyrirtækið ekki muna mikið um bæturnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×