Innlent

Mátu ekki þjóðhagsleg áhrif þjóðnýtingar Glitnis

Hagfræðingar Seðlabankans mátu ekki þjóðhagsleg áhrif þjóðnýtingar Glitnis. Síðan tíðindi bárust um á mánudagsmorgun, hefur gengi krónunnar lækkað um 15 prósent og lánshæfismat ríkisins og íslensku viðskiptabankanna verið lækkað.

Samkvæmt heimildum var málið í höndum bankastjórnar Seðlabankans og koma nöfn starfsmanna hagfræðisviðs bankans ekki fyrir á minnisblöðum um afleiðingar þjóðnýtingarinnar. Heimildarmaður innan stjórnarráðsins bendir á að málið sé á ábyrgð forsætisráðuneytisins. Þegar spurt var hvort nöfn hagfræðinga seðlbankans kæmu fyrir á minnisblöðum um þjóðhagsleg áhrif og áhrif á fjármálakerfið, sagði heimildarmaðurinn að margir hagfræðingar hefðu komið að málinu. Hann vildi hins vegar ekkert segja um það hverjir það hefu verið.

Í samtali við fréttastofu staðfesti Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, að hvorki hann né staðgengill hans hafi tekið þátt í að meta þjóðhagsleg áhrif þjóðnýtingar Glitnis eða áhrif hennar á fjármálakerfið. Tími hafi hreinlega ekki unnist til slíks enda hafi hlutirnir gerst ansi hratt um síðustu helgi.

Starfsmenn Seðlabankans sátu í hádeginu fund sem bankastjórnin boðaði óvænt til. Þar fór Davíð Oddsson yfir þær opinberu upplýsingar sem fyrir liggja um Glitnismálið og lagði áherslu á að ákvarðanir hefðu verið teknar af ríkisstjórninni en ekki Seðlabankanum.Síðan tíðindi bárust um þjóðnýtinguna, á mánudagsmorgun, hefur gengi krónunnar lækkað um 15 prósent. Lánshæfismat ríkisins og allra íslensku viðskiptabankanna hefur verið einnig lækkað og skuldartryggingaálag ríkisins rokið upp.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×