Skoðun

Öfgafullum hagsveiflum verður að linna

Hermann Guðmundsson skrifar

Það er örugglega að bera í bakkafullan lækinn að rita grein um efnahagsmál. Ég ákvað samt að gera það út frá einföldum sjóndeildarhring atvinnurekanda og verkefnum hans. Að einhverju leyti er þetta til eigin nota og að einhverju leyti er ég að skrifa mig frá þessum hugsunum.

Í þessum orðum mun ég forðast að tengja saman orsakir og afleiðingar og eingöngu horfa á afleiðingar.





Ótrúlegar gengissveiflur

Sú kreppa sem Ísland nú stendur frammi fyrir er án vafa sú erfiðasta í áratugi. Þess ber að geta að gengi krónunnar hefur frá aldamótum sveiflast með ótrúlegum krafti. Þessar sveiflur hafa gríðarleg áhrif á allt atvinnulíf og ekki síður á hag heimilanna. Þegar krónan styrkist hratt þá hellist mikill kaupmáttur yfir hagkerfið sem leiðir til þenslu og offjárfestingar en þegar síðan krónan fellur hratt þá dýpkar vandinn verulega vegna þess hve sveiflan er mikil í veikingarátt.

Þegar skoðað er gengi Bandaríkjadollars gagnvart íslenskri krónu frá ársbyrjun 2001 og til dagsins í dag þá áttar maður sig á öfgunum:

Dollar / Króna

2001+23,16 %

2002-20,77 %

2003-12,10 %

2004-13,30 %

2005+2,01 %

2006+12,80 %

2007-11,70 %

2008-58,70 %

Hluti af þessum sveiflum á gjaldeyri endurspeglast síðan í verðbólgunni sem líka er gríðarlega sveiflukennd. Öll árin frá aldamótum hefur verðbólgan á einhverjum tíma árs verið yfir 5% og langtímum saman hefur hún verið nálægt 10%.

Ég hef staðið í rekstri fyrirtækja síðan 1994 eða bráðum í 15 ár og á þeim tíma hafa komið nokkrar öfgafullar sveiflur og maður hefur með tímanum þróað með sér einhverja heimatilbúna aðferðafræði til að glíma við skammtímavanda. Það sem út af stendur er spurningin af hverju í ósköpunum fer allur kraftur og allur ávinningur íslensks atvinnulífs í það að reyna að lifa af óðaverðbólgu og gríðarlegar gengissveiflur

Þegar maður horfir á næstu efnahagskerfi og áttar sig á því að stóru hagkerfin eru að glíma við verðbólgu frá 1,5-3% og vaxtastig í lánsfé frá 5-7,5% þá sér maður glögglega við hvaða skilyrði við erum að starfa sem erum að reka íslensk fyrirtæki.

Nú er það ekki svo að stóru hagkerfin séu ekki með vandamál eða sveiflu á virði evru á móti Bandaríkjadollar og öfugt. Það hins vegar kemur ekki mjög sterkt í gegnum efnahagslífið þar sem meirihluti atvinnulífsins er aðeins að starfa í einum gjaldmiðli og því eru það helst stærstu fyrirtækin í útflutningi sem eru að glíma við þær sveiflur.



Fráleit skipan mála

Þegar ég horfi til baka síðustu áttu árin gæti ég trúað að 50% af tíma mínum, og sennilega er hærra hlutfall af tíma stjórnarfunda, hafi farið í að ræða og skipuleggja fjármál, gengismál og verðbólgu. Þetta er algerlega fráleit skipan mála.

Ef einhver verðmæti eiga að verða til í íslensku atvinnulífi til framtíðar þá verður þessum öfgum að linna. Við sem þjóð erum ótrúlega lánsöm með okkar auðlindir og undirliggjandi styrk. Við framleiðum gríðarleg verðmæti pr. mann í hagkerfinu en vegna sveiflanna þá tapast gríðarleg verðmæti aftur í stað þess að byggja undir enn frekari verðmætasköpun.

Það væri hægt að fara í löngu máli í gegnum þau atriði sem komu því ójafnvægi á sem raun ber vitni. Hvort sem bankarnir lifðu eða ekki þá hafa skilyrði atvinnulífsins til að fá langtímalánsfé inn í sinn rekstur verið alveg óásættanleg til fjölda margra ára.

Við höfum haft um það að velja að vera með fjármagn sem kostar að nafnvöxtum 18-26% í skammtíma lánum eða verðtryggð lán með 8-10% vöxtum sem nú um stundir er jafnvel enn dýrara. Hinn kosturinn sem flestir hafa valið er að taka lán í erlendri mynt og geysilega gengisáhættu. Aðalástæðan er sú að það er minni skaði fyrir reksturinn að efnahagurinn veikist tímabundið en að fórna sterku sjóðstreymi fyrir minni áhættu.

Þessi staðreynd gerir eðlilegan strúktúr á efnahag fyrirtækja vonlausan. Við svona skilyrði má segja að öll fyrirtæki eigi eingöngu að notast við eigið fé og vaxa eingöngu í gegnum afkomu sína. Sums staðar þekkist t.d. að lífeyrissjóðir kaupi sterk fyrirtæki að fullu og geri upp allar skuldir þess í skiptum fyrir að fá 75% af hagnaði félagsins í arð um langa hríð. Í slíkum fyrirtækjum eru aldrei tekin lán heldur ræður eigandinn því hvort hann leggur fram meira eigið fé í von um meiri arð.



Krónan uppspretta vandans

Þegar maður lítur yfir sviðið eftir margra ára rekstur og sér í raun og veru hversu óstöðugleikinn hefur leikið efnahag landsins grátt og nánast lagt allt atvinnulíf í rúst, þá hlýtur maður að horfa til þess hvað það er sem keyrir áfram þennan óstöðugleika. Ég get ekki séð annað en að krónan sé þetta vogarafl sem býr til óstöðugleikann.

Ég var þeirrar skoðunar lengi að krónan væri ágætt tæki til lækka kaupmátt hratt og gæti hjálpað okkur við að ná bata hraðar en ella þegar á móti blési. Mín skoðun í dag er hins vegar sú að krónan er uppspretta vandans en ekki lausnin.

Að þessu sögðu þá þykir mér augljóst að verkefni stjórnvalda þegar hættuástandi hefur verið aflétt verður að byggja nýja grunngerð í íslensku efnahagslífi. Sú gerð verður að vera til þess fallin að næstu tíu ár verði ár stöðugleika og að verðbólga og vextir á langtímafjármagni fyrir atvinnulífið og heimilin verði sambærileg því sem við þekkjum erlendis. Ég ætla ekki í þessum pistli að rekja hversu skaðlegt tæki verðtrygging er í baráttunni við verðbólguna en bendi frekar á að engar alvöruþjóðir nota slíkt leiðréttingatæki. Það er frekar horft til breytilegs vaxtastigs á langtímalánum.

Að lokum er rétt að benda á að fall bankanna er eingöngu birtingarmynd þess veikleika sem við byggjum allt okkar á en ekki orsök. Ef Ísland hefði verið hluti af stærra hagkerfi þá væri þjóðin ekki svona illa stödd.

Höfundur er forstjóri N1






Skoðun

Sjá meira


×