Viðskipti erlent

Danskur kjólakaupmaður í klónum á CIA

Christa Möllgaard Hansen er kjólakaupmaður í Maribo í Danmörku. Hún er nú komin á lista bandarísku leyniþjónustunnar CIA yfir fólk sem grunað er um að styðja við bakið á hryðjuverkamönnum.

Christa pantaði sér sex kjóla frá fataverksmiðju í Pakistan og sendi verksmiðjunni 205 dollara sem greiðslu fyrir kjólanna. Dollararnir náðu þó aldrei til viðtakenda því CIA greip inn í peningasendinguna og gerði dollarana upptæka.

Samkvæmt frétt í Berlinske Tidende mun líða ár og dagur þar til Christa sér kjóla sína, hvað þá dollarana.

Christa rekur kjólaverslunina Christabellas í Maribo. Hún notaði netbanka sinn til að millifæra greiðsluna til Pakistan í vor. Síðan leið og beið.

"Eftir tíu daga fékk ég upphringingu frá bankamanni mínum hjá Nordea," segir Christa. "Hann tjáði mér að höfuðstöðvar bankans í Kaupmannahöfn hefðu fengið kröfu frá bandarískum stjórnvöldum um frekari upplýsingar um viðtakenda greiðslunnar í Pakistan."

Christa segir að hún sé steinhissa á öllu þessu brambolti vegna lítillar sendingar á kjólum til sín. Hún hafi notað netbanka sinn til kaupa á kjólum í Taílandi, Bandaríkjunum og Hong Kong og aldrei lent í vandræðum.

Nordea varð við beiðni Bandaríkjamanna og sendi þeim allar þær upplýsingar sem bankinn hafði um viðtakenda dollarana í Pakistan. Síðan þá hefur ekkert heyrst í Bandaríkjamönnunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×