Viðskipti innlent

Færðu milljarða fyrir greiðslustöðvun

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson. Samson eignarhaldsfélag og Samson Global Holdings eru félög bæði í eigu Björgólfsfeðga. Annað átti bróðurpart í Landsbankanum og hitt á rúman þriðjung í Straumi.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Samson eignarhaldsfélag og Samson Global Holdings eru félög bæði í eigu Björgólfsfeðga. Annað átti bróðurpart í Landsbankanum og hitt á rúman þriðjung í Straumi. Fréttablaðið/Daníel
Sama dag og Samson eignarhaldsfélag fékk greiðslustöðvun, 7. október síðastliðinn, gerði Straumur-Burðarás upp kröfur og skuldir við félagið.

Greiddir voru tæpir tveir milljarðar króna til Samson. Samson eignarhaldsfélag átti um 40 prósent í Landsbankanum og fór fram á greiðslustöðvunina eftir að ríkið tók bankann yfir.

Straumur er í ríflega þriðjungseigu Samson Global Holdings. Samson eignarhaldsfélag og Samson Global Holdings eru bæði í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfsfeðga, staðfestir að „einhver greiðslujöfnun" hafi átt sér stað 7. október, en áréttar að það hafi hvorki verið að frumkvæði eða beiðni Samson eignarhaldsfélags.

Samson er svo einnig í ábyrgð fyrir 207 milljónum evra (26 til 31 milljarðs króna eftir gengi) láns Landsbankans til XL Leisure Group sem varð gjaldþrota í september. Sú ábyrgð var færð um miðjan mánuðinn af Eimskipafélaginu yfir á Samson.

Samson ætlar að fara fram á framlengingu greiðslustöðvunar eftir helgi, en komi til þess að félagið fari í þrot, tekur skiptastjóri afstöðu til krafna og tilfærslna fyrir greiðslustöðvunina.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×