Viðskipti erlent

Jón Ásgeir stjórnarformaður Iceland í Bretlandi

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur tekið við stjórnarformennsku í Iceland matvöruverslunum í Bretlandi. Baugur keypti Iceland árið 2004. Iceland er viðamikið félag í örum vexti, en verslanakeðjan var stofnuð árið 1970 og telur nú yfir 660 verslanir víðs vegar um Bretland og Írland.

Iceland sérhæfir sig í frosinni matvöru. Fyrirtækið er þekkt fyrir frumkvæði og hagstætt verð á vörum sínum og er sú verslanakeðja sem er í hvað örustum vexti í Bretlandi.

„Iceland er öflugt fyrirtæki og á mikið inni," sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, þegar hann tók við stjórnarformennsku í félaginu. „Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og taka þátt í frekari uppbyggingu."

Í umfjöllun um málið á vefsíðu Baugs segir að við þessa breytingu hættir Jón Ásgeir í stjórnum Magasin og Illum og lætur um leið af stjórnarformennsku í báðum félögum. Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, hefur tekið við af Jóni Ásgeiri í Magasin og Illum, og verður um leið stjórnarformaður í félögunum.

Mikill viðsnúningur til hins betra hefur orðið í rekstri Magasin og Illum síðastliðin 3 ár, en Baugur keypti sig inn í fyrirtækin ásamt öðrum fjárfestum árin 2004 og ´05. Verslanirnar hafa tekið algjörum stakkaskiptum á þessum tíma og Magasin er á ný orðin eftirlæti danskra viðskiptavina, enda skilaði félagið miklum rekstrarhagnaði á síðasta ári í fyrsta sinn síðan á níunda áratugnum.

Eftir sem áður er Jón Ásgeir í stjórn Mosaic Fashion í Bretlandi, sem er móðurfyrirtæki sjö kventískuvörumerkja: Oasis, Warehouse, Principles, Karen Millen, Coast, Odille og Anoushka G. Auk þess er Mosaic Fashions móðurfyrirtæki Shoe Studio Group sem er með ýmiss skóvörumerki á sínum snærum. Hann situr einnig í stjórn House of Fraser.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×